«

»

Molar um málfar og miðla 1388

Ríkisútvarpið fær hrós fyrir stundvísi í dagskrá. Stundum hlustar Molaskrifari á útvarpsfréttir og horfir samtímis á BBC World Service fréttarásina. Það bregst ekki að fréttir beggja stöðva hefjast á sömu sekúndunni. Stundvísi Ríkissjónvarpsins er oft ábótavant. Ekki tókst til dæmis að láta seinni fréttir byrja á slaginu tíu á þriðjudagskvöld (14.10.2014) og í gærkveldi (15.01.2014) hófust seinni fréttir klukkan 22 10 , tíu mínútum of seint. Aldrei þessu vant var seinkunin tilkynnt í skjátexta. Og Bogi baðst afsökunar. Íþróttir ollu seinkuninni. Íþróttir hafa alltaf forgang í Íþróttasjónvarpi ríkisins.

 

Rafn benti á eftirfarandi frétt á mbl.is (15.01.2014) : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/14/vilja_ibudir_i_othokk_meirihlutans/ Fyrirsögnin er: ,, Vilja kaupa íbúðir í óþökk meirihlutans”. Rafn segir: ,,Ég á bágt með að skilja hugsun í þessari frétt. Þegar meira en helmingur hóps greiðir atkvæði á sama veg, þá hélt ég í einfeldni minni, að það væri meirihluti hópsins. “ Það er að sjálfsögðu rétt. Þakka bréfið.

 

,,… hlægilegt að fólk skuli hafa dottið þetta í hug”. Svona tók Freyr Gígja Gunnarsson til orða í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.01.2014). Slæm villa. Fólk dettur ekki í hug. Fólki dettur í hug.

 

Leiðari Morgunblaðsins í dag, fimmtudag (16.01.2014) ber fyrirsögnina: Alltaf sami söngurinn.   Rétt er að taka fram að þar  er verið að skrifa um einn anga  hins sjúklega haturs Morgunblaðsins á samstarfi  Evrópuþjóða innan ESB, – hatur sem   blaðið ber á borð  fyrir lesendur sína á hverjum einasta degi. Þar er alltaf  sami söngurinn.

 

Fyrirsögn í Morgunblaðinu (16.01.2015): Flogið á stærstu verslunarmiðstöð í Norður – Ameríku. Áréttað skal að fréttin er ekki um flugslys. Heldur er í fréttinni greint  frá því að Icelandair  ætli að hefja áætlunarflug til Edmonton í Kanada, en  þar er að finna eina stærstu verslanamiðstöð, eða Kringlu, í  Norður  Ameríku.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>