«

»

Molar um málfar og miðla 1389

Mikill fjöldi pappírs , sagði Jóhann Hlíðar Harðarson í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (15.01.2014): ,, Það gefur því auga leið að mikill fjöldi pappírs fer til spillis í þessu ferli.” Mikið magn pappírs, hefði hann fremur átt að segja. http://www.ruv.is/frett/pappirssoun-i-haestaretti Til hvers starfar málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið?

 

Er ekki hægt að takmarka endalaust og innihaldslaust fjas um handbolta við íþróttarás Ríkissjónvarpsins. Hvers eiga allir þeir að gjalda sem engan áhuga hafa á þessu rausi sjálfskipaðra sérfræðinga?

 

Það er lofsvert þegar í veðurfréttum Ríkissjónvarps er sagt frá veðri og hitafari í fjarlægum heimshlutum – Ástralíu á miðvikudagskvöldið (15.01.2014), en enn er spurt: Hversvegna er ekki hægt að birta borgaheiti þaðan sem hitatölur eru sýndar eins og gert er í veðurfréttum Stöðvar tvö?

 

Magnús skrifaði (15.01.2014): ,,Mbl.is og dv.is bjuggu til sögnina að hópnauðga í dag: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/15/danskri_konu_hopnaudgad/
Ég sendi þeim mbl.is eftirfarandi athugasemd en það hafði engin áhrif:
„Sögnin að hópnauðga er ekki til, ekki frekar en að hóphlaupa, að hópavinna, að hópsyngja eða að hópkaupa. Ef ég fæ hóp af fólki í heimsókn er ég þá hópheimsóttur?“. Molaskrifari þakkar Magnúsi sendinguna og réttmæta athugasemd.

 

 

Haukur Örvar Weihe skrifaði (16.01.2014): ,,Sæll Eiður og þakka þér fyrir pistlana þína.

Í mörg ár hefur heyrst auglýsing frá Lyfjum og heilsu á Bylgjunni.
Þar er lesið upp: ,,Vöknum með Lyf og heilsu á morgnana”, í stað þess að segja vöknum með Lyfjum og heilsu…..

Ég hafði samband við starfsmann á Bylgjunni sem hafði með auglýsingalestur að gera og sagði hann að það hljómaði svo asnalega að segja ,,vöknum með Lyfjum og heilsu“ . Molaskrifari þakkar Hauki bréfið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Og hvað er að sögninni að hópnauðga? Hún lýsir fyrirlitlegum verknaði vel, er skýr, fellur að beygingakerfi málsins og skilst auðveldlega. Væri skilmerkilegra að segja: „Danskri konu nauðgað af hópi karla“? Þar væru þó komin fjögur orð fyrir eitt. Lýsa þau verknaðinum betur? Væri það skýrara? Félli það betur að beygingakerfinu? Skildist það betur?
    Og þótt eitthvað orð finnist ekki á orðabók er ekki þar með úrskurðað að það eigi sér engan tilverurétt. Vandinn er ekki annar en bæta því við.
    Og þótt „hópheimsóttur“ falli etv. ekki öllum í geð er ekkert að því frá málfræðilegu sjónarhorni; ekki fremur en ef. ft. af „rotta“ sem er „rottna“.
    Og hvað með verknaðinn að „hópskrópa“ sem ýmsir nemendur tiltekins framhaldsskóla hafa ástundað í aldanna rás?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>