Molavin skrifaði (13.02.2014): „Formaður Viðskiptaráðs þykir heppilegra að ljúka aðildarviðræðum…“ segir í undirfyrirsögn viðskiptablaðs Mbl. í dag 13. feb. Mistök af þessu tagi, sem enginn virðist prófarkalesa, eru að verða daglegt brauð í fjölmiðlum. Er hugsanleg skýring sú að fréttaskrif séu að mestu að verða í höndum ungs fólks, sem er vanast því að skrifa stutt símboð – eða að „texta“ á símann sinn, og fæst því sjaldnast við samsettar setningar? Það er lágmarkskrafa að sá sem skrifar lesi sinn eigin texta með gagnrýnum huga áður en hann er settur í blaðið (á Netið).
Í tónleikaauglýsingu á Bylgjunni (12.02.2104), frá ,,Dúndurfréttum” og Bylgjunni var sagt: Engu verður til sparað. Endalaust rugla menn saman orðtökunum ekkert til sparað og engu til kostað. Er það í raun þannig að fréttaskrifarar geti ekki tileinkað sér jafn einfalt atriði og þetta? Í fréttum Ríkissjónvarps þetta sama kvöld sagði fréttamaður einnig engu til sparað. Smitandi.
Enn tala fréttabörnin á visir. is leikskólamál og tala um að klessa á (12.04.2014): Bíllinn stóð skáhalt á veginum og klessti rútan, sem var á leið frá Osló, á hann. Enginn yfirlestur engin barnagæsla. Var ekki bíllinn þversum á veginum?
Rannsóknin stóð yfir í um nokkurra mánaða skeið, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (12.02.2014). Hér hefði nægt að segja að rannsóknin hefði staðið í nokkra mánuði.
Rafn sendi eftirfarandi (1.202.2014): ,,Hvað er athugavert við að kalla svarta menn negra? Það orð á ekkert sameiginlegt með ameríska bannorðinu „nigger“, heldur er það þýðing á orðinu „negro“, sem býr ekki við sömu bannhelgi og „nigger“. Þetta er af DV.is.
Kveðja Rafn
Börnum kennt að svartir menn séu kallaðir negrar
„Mennirnir á jörðinni eru ekki allir eins. Svartir menn eru kallaðir negrar. Þeir búa flestir í Afríku.“ Þetta eru íslensk börn í öðrum bekk látin lesa og læra í bókinni Við lesum. Trommuleikarinn Jón Geir Jóhannsson úr hljómsveitinni Skálmöld tók meðfylgjandi mynd ( Ekki tókst að færa myndina inn í Mola)eftir að hann var að hjálpa dóttur sinni með heimanámið.
Birtir hann myndina á Facebook og hefur hún farið sem eldur í sinu um netheima í kvöld. Virðast flestir furða sig á því að svona orðfæri skuli notað í kennslubók fyrir börn árið 2014 líkt og Jón Geir sem spyr hvort ekki sé kominn tími til að uppfæra kennsluefni grunnskólanna.
Eins og sjá má er því haldið að börnunum að gulir menn séu kallaðir mongólar og búi flestir í Asíu. Rauðir menn séu kallaðir rauðskinnar eða indíánar og þeir búi í Ameríku.
Kennari einn bendir á í athugasemd við frétt Vísis af málinu að umrædd bók, Við lesum -Lestrar- og vinnubók C, hafi verið afskrifuð fyrir mörgum árum síðan hjá Námsgagnastofnun. Lestrar- og vinnubækur A og B í sömu seríu eru hins vegar enn notaðar. Ekki er að finna C-bækurnar á vef Námsgagnastofnunar og virðist því sem umrædd bók sem greinilega er notuð í Varmárskóla sé hugsanlega löngu úrelt ljósrit sem enn er í umferð.” – Molaskrifari þakkar bréfið. Um þetta sýnist sjálfsagt sitt hverjum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar