Steini skrifaði Molum og benti á þessa frétt á dv.is (11.02.2014):
http://www.dv.is/frettir/2014/1/30/logreglan-med-lysingu-manni-sem-grunadur-er-um-ad-byrla-fyrir-stulkum/
,, Blaðamaður á við að umræddur aðili hafi eitrað fyrir stúlkum. Eða byrlað þeim eitthvað. Ekki byrla fyrir þeim.
Annað, þessu skylt. Ekki rétt að taka svo til orða að tilkynnt hafi verið UM eitthvað. Heldur að eitthvað hafi verið tilkynnt. Fallegri íslenska.”
Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta eru réttmætar ábendingar
Tóm tjara (eins og stundum er sagt) á mbl. is (10.02.2014). ,, Þota færeyska flugfélagsins Atlantic Airways lenti á Keflavíkurflugvelli í hádeginu í dag. Þetta er fyrsta ferðin í áætlunarflugi félagsins á milli Færeyja og Íslands og er lent í Keflavík á meðan beðið er svara íslenskra flugmálayfirvalda hvort lenda megi þotunni á Reykjavíkurflugvelli.” Atlantic Airways hefur flogið áætlunarflug til Íslands árum saman. Furðuleg fáfræði á stórum fjölmiðli. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/10/faereyingar_fljuga_til_keflavikur/
Síðan ástandið brast á, sagði fréttamaður í Spegli Ríkisútvarps (11.02.2014). Allt brestur nú á ! Síðan þessi staða kom upp, síðan þetta varð svona ….
Íþróttafréttamenn Ríkissjónvarpsins bera saman kostnað við vetrarleikana í Sochi og sumarleikana til dæmis í Peking( Beijing) og London. Slíkur samanburður er út í hött eins og Kristín M. Jóhannsdóttir hefur bent á á fésbók. Kristín starfaði við vetrarleikana í Vancouver og þekkir vel til þessara mála. Hún sagði á fésbók: ,,Merkilegt hversu oft maður heyrir íslenska fréttamenn bera kostnaðinn við leikana í Sochi saman við kostnaðinn í Bejing eða í London. Þetta er hins vegar ekki eðlilegur samanburður því sumarleikar eru alltaf miklu dýrari en vetrarleikar. Það að þessir leikar eru þrefalt dýrari en þeir í London segir því bara hálfa sögu. Það þarf að bera þessa leika við vetrarleika og það að þeir eru tíu sinnum dýrari en leikarnir í Vancouver segir okkur mun meira.”
Molaskrifari dáist alltaf svolítið að því hvað Eygló Harðardóttir , félagsmálaráðherra kemur vel fyrir í sjónvarpi og hvað hún er mælsk og getur talað lengi án þess að segja nokkurn skapaðan hlut sem máli skiptir. Það er alveg sérstakur hæfileiki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar