«

»

Molar um málfar og miðla 1415

Eldfjallið gaus í gærnótt, sagði fréttamaður Stöðvar tvö á föstudagskvöld (14.02.2014). Æ algengara að heyra þetta. Hvenær var þessi gærnótt? Kunna menn ekki lengur að segja í fyrri nótt eða nótt sem leið? Sennilega ekki.

 

Meira úr sama fréttatíma um þá sem dæmdir voru í hinu svokallaða Stokkseyrarmáli. Sagt var um þrjá sakborninga, að þeir hefðu fengið tveggja og hálfs árs til þriggja og hálfs ára fangelsisdóma. Þriggja og hálfs árs fangelsisdóma hefði þetta átt að vera. Sagt var að fimm menn hefðu samtals hlotið  12 ára fangelsisdóma. Það segir okkur ósköp lítið hver árafjöldinn var samtals hjá dæmdum sakamönnum. Máli skiptir dómurinn yfir hverjum og einum.

 

Í þessari frétt á mbl.is (13.02.2014) um að Edda Hermannsdóttir fari til starfa á nýrri sjónvarpsstöð, Miklagarði, notar hún orðið skemmtilegur þrisvar sinnum í fimm línum! Það verður skemmtilegt að fylgjast með því hvort orðgnóttin verður meiri þegar nýja sjónvarpsstöðin tekur til starfa.  Vonandi. http://www.mbl.is/smartland/stars/2014/02/13/edda_hermannsdottir_fer_yfir_a_miklagard/

 

Sigurgeir skrifaði (14.02.2014): ,,Í netútgáfu Viðskiptablaðsins 14. feb. 2014 segir svo:
Athafnamaður hlaut tveggja og hálfs árs dóm í fyrra fyrir að hafa snuprað bankana um hundruð milljóna í fasteignaviðskiptum.
 Er það ekki nokkuð þungur dómur að fá tvö og hálft ár fyrir að snupra banka? Ég hélt að sögnin að snupra merkti hið sama og að ávíta eða skamma. En kannski er manni hollara að gæta orða sinna ef bankastofnanir komast til tals.” Þetta er rétt, Sigurgeir. Skrifari virðist hafa ruglað saman sögnunum að snupra og að snuða (d. snyde), svíkja, plata , svindla á.

 

Í fréttum Ríkisútvarps var sagt fyrir helgina að þingmenn á tyrkneska þinginu hefðu látið hnefana tala, þegar til slagsmála kom í þinginu. Molaskrifari hefði kunnað því betur, að sagt hefði verið að þingmenn hefðu látið hendur skipta, eða hreinlega að þingmenn hefðu slegist.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>