«

»

Molar um málfar og miðla 1417

 

Rafn benti á þessa frétt á pressan.is , þar sem segir meðal annars:

Viðskiptajöfnuðurinn hefur aldrei verið meiri en hann nam 133,9 milljörðum danskra króna 2013 sem er 24,7 milljörðum meira en árið áður. Sjá: http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/danmork-vidskiptajofnudurinn-slo-oll-met-2013

Rafn segir: ,,Er þessi frétt ekki dæmi um ójöfnuð fremur en jöfnuð?? Fréttin er af vef Pressunnar.

Þetta minnir mig á þegar fyrrverandi ráðherra tók til marks um fullan jöfnuð kynja í nýrri ríkisstjórn Íslands, að það voru sendar 3 konur og 1 karl til að kynna hina þá nýju ríkisstjórn. Slíkt hefði seint verið talið fullur jöfnuður í minni sveit.

Í mínum huga getur misvægi aldrei orðið jafnvægi, þótt það sé á þann veg sem er viðkomandi þóknanlegur”. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

KÞ vakti athygli Molaskrifara á meiri snilld á vefnum pressan.is (17.02.2014): Það kemur væntanlega ekki mörgum á óvart að mannréttindabrot eru algeng í einræðisríkinu Norður-Kóreu en umfang þeirra og hryllilegar aðferðir stjórnvalda við að kúga almenning virðast ekki eiga sér engin takmörk. Enginn yfirlestur eða gæðaeftirlit með því sem birt er. http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/02/17/ny-skyrsla-sth-hryllileg-mannrettindabrot-i-nordur-koreu/

 

Fréttabarn hefur verið á vaktinni á mbl.is síðdegis mánudag (17.02.2014). Þar var svohljóðandi fyrirsögn: Hótaði að klessa vélinni. Fréttin var um flugmann sem hótaði að brotlenda farþegaflugvél. Fyrirsögnin var lagfærð um kvöldið.

 

Molalesandi, HH, vakti athygli á auglýsingu frá ProOptik á vefsíðunni http://www.hun.is/. Þar segir: 18 ára og yngri eiga rétt á endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa , við útbúum gleraugu sem nemur upphæð endurgreiðslunnar. Það er svo sannarlega ekki fyrir alla að skilja hvað hér er átt við.

 

Í fyrirsögn á forsíðu DV (18.-20.02.2104) stendur: Óbreyttir starfsmenn voru sendir í sprengjuhættu. Hversvegna þarf að taka fram að þetta hafi verið óbreyttir starfsmenn? Molaskrifari hefði notað orðið sprengihætta ekki talað um sprengjuhættu. Heldur ekki að senda menn í hættu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>