«

»

Molar um málfar og miðla 1445

Step your staðreyndatékk upp gott fólk. Þetta skrifar aðstoðarmaður SDG forsætisráðherra, Jóhannes Þór Skúlason, á heimasíðu sína http://www.johannesthor.com/nyjustu-frettir-sannleikur-eda-lygi/ Enda segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: ,, Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.” Aðstoðarmaður forsætisráðherrans er greinilega önnum kafinn við að auka virðingu fyrir íslenskri tungu.

 

Úr frétt af mbl.is (31.03.2014) : Þá var tilkynnt um þjófnað úr herbergi í Reykjavík í dag ásamt því að tilkynnt var um árekstur.  Rétt er að spyrja: Og hverju eru lesendur svo nær?

 

Úr DV (01.-03.04.2014) … er hann heimsótti Ísland síðastliðinn maí. Beygingafælni eða vankunnátta? Hefði átt að vera : … er hann heimsótti Ísland í maí síðastliðnum.

 

Í sama tölublaði DV var haft eftir Ögmundi Jónassyni alþingismanni og fyrrum ráðherra, að hann ætlaði að bíða átekta næstu daga og sjá hvort yfirvöld ,,ætli virkilega að láta lögbrjóta komast upp með framferði sitt”. Ögmundur á hér við þá sem innheimta gjald af ferðamönnum sem koma að Geysi. Molaskrifari spyr: Hversvegna sitja Ögmundur og aðrir þingmenn aðgerðalausir hjá, þegar Ríkisútvarpið og Stöð tvö daglega brjóta lög um bann við áfengisauglýsingum?

 

Hann fékk þrenn gull- og tvö silfurverðlaun las fréttaþulur Ríkissjónvarps (01.04.2014) í fréttayfirliti. Rétt hefði verið að segja,  að íþróttamaðurinn hefði hlotið þrenn gullverðlaun og tvenn silfurverðlaun.

 

Rannsóknarlögreglan Tom …. sagði niðursoðna konuröddin í Ríkissjónvarpinu sem enn kynnir okkur dagskrána (01.04.2014). Rannsóknarlögreglumaðurinn Tom … hefði hún betur sagt. Eða: Lögreglumaðurinn Tom … Það er brýnt að einhver með sæmilega máltilfinningu lesi þessa kynningartexta konunnar yfir áður en þeir eru lesnir yfir okkur.

Hversvegna segir enginn innanríkisráðherranum að hætta að líma á sig freðið bros í lok allra setninga í sjónvarpsviðtölum? Það væri góðverk.

 

Og að lokum: Hversvegna leggur Ríkissjónvarpið ofuráherslu á það í dagskrárkynningum þessa dagana að rætt verði við Kristján Þór Júlíusson, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í næsta þætti Gísla Marteins Baldurssonar? Verður hann sá eini, sem rætt verður við?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>