«

»

Molar um málfar og miðla 1446

Í auglýsingu, sem nær yfir heila opnu í Fréttablaðinu á fimmtudag (03.04.2014) frá fyrirtækinu LG, sem framleiðir meðal annars sjónvarpstæki, segir: ,,Í þúsundir ára hló fólk af hugmyndinni að jörðin væri kringlótt.” Þessi texti er hrákasmíð. Í fyrsta lagi hlær fólk ekki af hugmyndum. Hlegið er að hugmyndum. Í öðru lagi er jörðin er ekki kringlótt, hún er hnöttótt, hnöttur, kúlulöguð. Þetta er eiginlega of dapurlegt til þess að hægt sé að hlæja að því. Vond vinnubrögð.

 

Í Virkum morgnum á Rás tvö (02.04.2014) töluðu umsjónarmenn um að allt logaði í verkföllum. Síðan upphófst bull um að útvarpsfólk gæti ekki farið í verkall og alls ekki fréttamenn.- sá var tóninn í bullinu. Umsjónarmenn voru greinilega á því að ekkert hafi gerst í veröldinni áður en þau fóru að muna eftir sér. Útvarpsmenn hafa farið í verkfall. Blaðamenn hafa farið í verkfall. Svo á þetta fólk til starfa við fréttaskýringaþáttinn Kastljós!  Gullfiskaminni hentar  illa í Kastljósi.

 

Enskusletturnar smeygja sér víða. Í morgunþætti Rásar tvö (02.04.2014) var rætt um þau kjör sem símafélögin bjóða viðskiptavinum sínum. Umsjónarmaður talaði um ,,verri díl”, – lakari kjör. Gísli Marteinn Baldursson talaði í sama þætti um lókeisjon (e. location) en þýddi slettuna og talaði um staðsetningu. Líka óþörf sletta. Stundum eru þessar slettur kæruleysi og stundum eru menn að slá um sig.

 

Bæði Ríkisútvarpið og frambjóðandi Framsóknarflokksins Óskar Bergsson (03.04.2014) töluðu um að hann ætlaði að stíga til hliðar. Frambjóðandinn ætlar að hætta við að bjóða sig fram, draga sig hlé, þegar við blasir algjört fylgishrun Framsóknarflokksins í Reykjavík samkvæmt skoðanakönnunum. Rétt er að geta þess að síðar var talað um frambjóðandinn ætlaði að draga sig í hlé. Þetta orðalag að stíga til hliðar er orðið óþægilega algengt. Við getum alveg án þess verið, rétt eins og kjósendur í Reykjavík virðast telja sig komast vel af án atbeina Framsóknarflokksins.

 

Það er ansi nálægt því að vera pólitísk misnotkun á Ríkissjónvarpinu hvernig Gísli Marteinn Baldursson auglýsir dag eftir dag að í sjónvarpsþætti sínum á sunnudag (06.04.2014) ætli hann að ræða við einn af þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, Kristján Þór Júlíusson. Verður hann sá eini sem rætt verður við í þættinum? Ekkert annað efni?

 

Í lokin segir Molaskrifari: Svei mér þá ef dagskrá Ríkissjónvarpsins hefur ekki farið svolítið skánandi að undanförnu! Nýr útvarpsstjóri?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>