«

»

Molar um málfar og miðla 1464

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (30.04.2014) var sagt um uppsagnir starfsmanna hjá tilteknu fyrirtæki, að vonir stæðu til að unnt yrði að endurráða flesta aftur. Hér hefði nægt að segja, að unnt yrði að endurráða flesta eða ráða flesta til starfa að nýju.

 

Trausti Harðarson benti á þessa frétt á dv.is : http://www.dv.is/menning/2014/4/30/gomlum-vatnstanki-breytt-i-listaverk/
Í fréttinni stendur
„Það var síðastliðið sumar sem vatnstankinum, sem staddur er á vinsælu útivistasvæði í Reykjanesbæ, var breytt í útilistaverk en það var með aðstoð listahóps að nafni Toyistar.“
Trausti segir: ,,Að VERA STADDUR einhversstaðar felur í sér að hafa áður verið á hreyfingu.
Vatnstankurinn STENDUR, mun hér vera rétt.
Að hann sé STAÐSETTUR í Reykjanesbæ er jafnvel illskárra en að hann sé STADDUR þar.” Líka hefði mátt segja Vatnstankurinn er í Reykjanesbæ. Vatnstankurinn hefur væntanlega gert langan stans á útivistarsvæðinu! Það er á dv.is eins og víðar. Enginn fylgist með því sem viðvaningar skrifa.

 

Mbl.is segir frá því er þyrlu hlekktist á á Eyjafjallajökli (01.05.2014): Þyrl­an, sem er af gerðinni TF-HDW Ecur­euil, var við kvik­mynda­tök­ur á jökl­in­um. Þyrlur taka ekki kvikmyndir. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/01/thyrlu_hlekktist_a_a_eyjafjallajokli_3/

Á vef Ríkisútvarpsins segir hinsvegar réttilega: Farþegarnir voru við kvikmyndatöku, að því er segir í yfirlýsingu frá Norðurflugi. 

 

Sjálfhverfa og kjánagangur einkenna svokallaðar Hraðfréttir Ríkissjónvarps. Nýr útvarpsstjóri leggur þessu lið (30.04.2014). Um þverbak keyrði reyndar þegar eftirfarandi birtist á vef Ríkisútvarpsins á miðvikudag:. „Hinn geðþekki hraðfréttamaður Benedikt Valsson verður stigakynnir fyrir hönd Íslands í Eurovision.“ Lesandi vakti athygli Molaskrifara á þessu og spyr að vonum: ,,Hvurslags framsetning er þetta, Eiður. Þetta er til háborinnar skammar!” Þetta er auðvitað hluti hinnar undarlegu sjálfhverfu sem viðgengst í Efstaleitinu. Þetta var seinna fjarlægt af vefnum. Einhver hefur skynjað að þetta var ekki við hæfi.

 

Í tæknilega rugluðum fréttatíma Ríkisútvarpsins klukkan 2200 á fimmtudagskvöld (01.05.2014) var talað um banvæn vopn. Hrátt úr ensku lethal weapons. Sennilega geta öll vopn  valdið dauða. Eða hvað?

 

Þeir sem vilja vita hvað er að gerast í veröldinni (og skilja ensku) hlusta á BBC World Service á FM 94,3. Þar eru alltaf fréttir á heila tímanum. Það er ekki hægt að reiða sig á Ríkisútvarpið í þessum efnum. Þar eru ekki fréttir á klukkutíma fresti og fréttir á öðrum tímum um helgar en á virkum dögum. Engar fréttir eru fluttar frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Það er óviðunandi. Við eigum skilið að fá betri þjónustu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>