«

»

Molar um málfar og miðla 1465

 

 

Árni Helgason vakti athygli Molaskrifara á þessari frétt á  dv.is (02.05.2014):,, Frétt úr DV á netinu í morgun:
„… Ein kona reyndist vera í henni og aðstoðuðu slökkviliðsmenn hana út um glugga. Hún var síðan færð á slysadeild Landspítala Íslands til aðhlynningar. Annar íbúi í þessum stigagangi var einnig fluttur á slysadeild grunaður um reykeitrun. …“
Hann segir: ,,Aldrei hef ég heyrt það fyrr að menn geti verið grunaðir um annað en einhvers konar græsku. En oft leikur grunur á að menn séu sjúkir eða slasaðir og kunni að vera með reykeitrun.”  Molaskrifari þakkar ábendinguna.  Síðdegis þennan sama dag hafði villan ekki verið leiðrétt. Annað hvort les enginn á ritstjórninni það sem skrifað er á vefinn, eða menn sjá þetta ekki! http://www.dv.is/frettir/2014/5/2/slokkvilidsmenn-adstodudu-konu-ut-um-glugga/

 

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1800 (02.05.2014) var sagt að Rússar hefðu boðað til fundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þetta orðalag er út í hött. Í  fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld var sagt að neyðarfundur hefði verið boðaður í öryggisráðinu að kröfu Rússa. Það er rétt orðalag.

 

Ekki kann Molaskrifari við það orðalag sem notað er í auglýsingu frá Hjálparstofnun kirkjunnar, að byggja brunna. Eðlilegra væri að tala um að gera brunna, grafa brunna, eða bora eftir vatni.

 

Íþróttafréttamenn Ríkissjónvarps tala um handboltaveislur og fótboltaveislur þegar boltaleikir skyggja á allt annað efni í dagskránni. Ekki minnist Molaskrifari þess að hafa heyrt í Ríkissjónvarpinu talað um tónlistarveislur, óperuveislur eða menningarveislur yfirleitt. Mikið væri gott ef, þó ekki væri nema helmingur þess tíma, sem nú fer í að sýna boltaleiki í Ríkissjónvarpi allra landsmanna væri notaður til sýna okkur menningarefni og fréttaskýringar og vandaðar heimildamyndir um sögu og þróun heimsmála. Það er ekki til mikils mælst.

 

,, Einnig mun þetta gera okkur kleift að framlengja í þeim starfsmanni sem við erum (með) í Kiev í dag sem fer fyrir einni ÖSE missioninni,..” , sagði utanríkisráðherra lýðveldisins í sjónvarpsfréttum (02.05.2014).

http://www.ruv.is/frett/stjornin-veitir-fe-til-verkefna-i-ukrainu

 

Fréttamaður Ríkissjónvarps sagði (02.05.2014) í viðtali um framtíð Reykjavíkurflugvallar: ,,Friðrik sagði, að ef norðaustur-suðvestur brautin, sem stundum er nefnd neyðarbrautin, verði lokað sé nýtingarhlutfall flugvallarins orðið svo lágt …” Hér hefði átt að segja; … ef brautinni yrði lokað.

 

Nöfn veðurfræðinga/veðurfréttamanna í Ríkissjónvarpi og á Stöð tvö, Birta Líf og Vordís, eru bara ágætlega við hæfi!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Jón, – ég var var eiginlega sannfærður um að mér hefði misheyrst. Greinilega ekki. Það er hreint ekki öll vitleysan eins ! – K kv esg

  2. Jón Kristjánsson skrifar:

    Blessaður Eiður.

    Þakka þér fyrir skrifin, ekki veitir af. Ég var að horfa á frettirnar í ríkissjónvarpinu í kvöld og var þar sagt frá sauðburði í Grýtubakkahreppi. Þar talaði fréttakonan um sængurlegu sauðkindanna. Það hefði þótt einkennilegt orðalag í Skagafirði í mínu ungdæmi.

    Bestu kveðjur.

    Jón Kristjánsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>