«

»

Molar um málfar og miðla 1467

Bændurnir fylgjast með kindum á sængurlegunni, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (05.05.2014) um sauðburð fyrir norðan. Eru nú kindur farnar að leggjast á sæng? Molaskrifari hélt að sér hefðu misheyrst. Glöggur hlustandi vakti athygli hans á þessu. Molaskrifari hlustaði að nýju á fréttirnar. Jú, ekki um það að villast. Sængurlega sauðkinda er nú nýjasta nýtt.

 

Trausti Harðarson skrifaði (06.05.2014): ,,Dularfullur kínverskur kaupsýslumaður hyggst reisa skipaskurð í gegnum Nigaragua
Fyrir ekki mjög löngu var skrifað um að ,,reisa“ knattspyrnuvelli og flugvelli og var þó ekki meiningin að reisa þá upp á endann. Ég geri ráð fyrir að ekki sé heldur ætlunin að reisa skipaskurðinn upp á endann. En ég held að það sé full ástæða til að rifja upp að vellir eru LAGÐIR, en ekki reistir og að skurðir eru GRAFNIR. – Kærar þakkir Trausti. Rétt. http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/1383336/

 

Af mbl.is (04.05.2014),,Ragn­heiður Grön­dal bauð góðum vin­kon­um heim í kjúk­lingasúpa sem hún fékk upp­skrift að hjá móður sinni. Súp­an er einkar saðsöm og bragðgóð en með því út­bjó hún sum­arsal­at og notaði dress­ingu sem hún hef­ur þróað og gert full­komna að eig­in sögn.” Hér er ekki vandvirkni fyrir að fara. . Dressing er enska. Ekki íslenska.

 

Stigmagnandi, að eitthvað sé að stigmagnast eða fari stigmagnandi heyrist stundum í fréttum. Nýlega var sagt í fréttum Stöðvar tvö að ókyrrðin í Úkraínu færi stigmagnandi! Afleitt orðalag um vaxandi ókyrrð í Úkraínu.

 

Aftur og aftur gerist það að seinni fréttir Ríkissjónvarps hefjast ekki á réttum tíma.(05.05.2014). Hvað veldur? Kunna menn ekki á klukku? Eða er þetta bara kæruleysi og svolítill subbuskapur í stjórn útsendingar? Eins og margsinnis hefur verið sagt hér áður er stundvísin í Ríkisútvarpinu til einstakrar fyrirmyndar.

 

Hér var nýlega gert að umtalsefni veislutal í Ríkissjónvarpi þar sem haldnar eru boltaveislur af ýmsu tagi. Ný veislutegund bættist við á mánudagskvöld (05.05.2014). Þá var talað ,,heljarinnar Evróvisjónveislu”, eða Júróvisjónveislu. Þá heyrðum við einnig nýja útgáfu af hinu sífellda pakkatali í tengslum við íþróttafréttir. Sagt var að við ættum von á þéttum íþróttapakka, hvað í ósköpunum sem það nú þýðir.

 

Hverjir eru að fara að vinna þetta? Svona var spurt í morgunþætti í Ríkisútvarpinu (06.05.2014) þegar fjallað var um söngvakeppnina í Danmörku. Þetta orðalag heyrist æ oftar. Hversvegna ekki: Hverjir heldurðu að vinni? Hverjir heldurðu að sigri?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>