«

»

Molar um málfar og miðla 1484

 

Molavin skrifaði: ,, Birgir Olgeirsson skrifar Vísisfrétt í dag (2.6.14) þar sem segir m.a.: „þar hafði sambýlisfólki sinnast á. Kom til átaka þar sem hnífur var notaður en lögreglan segir sambýlisfólkið hafa hlotið minniháttar meiðsl. Á öðrum tímanum í dag þurfti lögregla að grípa til umferðarstjórnunar á Reykjavíkurvegi/Hafnarfjarðarvegi…“

 

„Að sinnast“ þýðir að verða sundurorða. „Að sinnast á“ er rugl. „Stjórnun“ er fræðigrein um það viðfangsefni „að stjórna“. Umferðarstjórn er almennt notað þegar lögreglan á í hlut. „Umferðarstjórnun“ er eflaust kennd við einhverjar verkfræðideildir háskóla.”  Molaskrifar þakkar bréfið.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (31.05.2014) var talað um að kjörstaðir hefðu opnað. Kjörstaðir voru opnaðir. Kjörstaðir opnuðu hvorki eitt né neitt. Ríkisútvarpið er nú orðið ævinlega með þetta rétt.

 

Nokkur nýlunda var að sjá þrjá innlenda þætti í röð í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (01.06.2014). Fyrst ágæta mynd, Sjómannslíf, svo lokaþátt Ferðastiklna þeirra feðgina Ómars og Láru. Prýðisefni , en þátturinn hefði alveg þolað svolitla styttingu og tónlistarvalið fannst Molaskrifara jafn óskiljanlegt og stundum áður. Í kynningu talaði konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins um Reykjafjörð, en fjörðurinn heitir Reykjarfjörður. Svo kom Inndjúpið. Fróðlegar mannlífsmyndir. En nefnt hefur verið hér áður hve undarleg uppsetning það er að setja Ferðastiklurnar og Inndjúpið hlið við hlið í dagskránni.

 

Birta Líf, veðurfræðingur hjá Ríkissjónvarpinu, á það til að brjóta svolítið upp hið fasta form veðurfregna þar á bæ. Nú síðast með því að birta ekki bara spá fyrir landið, heldur líka miðin (31.05.2014) daginn fyrir sjómannadaginn. Bara gaman að því, en sennilega hafa ekki margir verið á sjó á sjómannadaginn, frekar en venjulega þann dag.

 

Er ekki eitthvað nálegt við að verslunin Nettó skuli hvað eftir annað auglýsa svokallaðar návörur í útvarpsauglýsingum ? Hvað er á seyði? Hverskonar vörur eru návörur? Vita auglýsingahöfundar ekki hvað nár er?

 

Pakkar halda áfram að berast í Efstaleiti. ,, Þá er þessum ítarlega íþróttapakka lokið”, var sagt við sjónvarpsáhorfendur á sunnudagskvöld (01.2014). Hvernig lýkur pökkum? – Hvað skyldu annars margir starfsmenn sinna því bákni sem íþróttadeild Ríkissjónvarpsins er nú orðin?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>