Af mbl.is (16.06.2014): ,,Lögreglan á Selfossi stöðvaði för ökumanns á Skeiðavegi í gærkvöldi sem reyndist vera dauðadrukkinn undir stýri. Þess fyrir utan var hann sviptur ökuréttindum”. Þetta hefði betur mátt orða annan veg: Þess utan hafði hann verið sviptur ökuréttindum. Þar við bættist, að hann hafði verið sviptur ökuréttindum. Eða bara: Hann hafði ekki ökuréttindi.
Björn skrifaði (17.06.2014): ,,Skelfing er aulalegt að íþróttadeild Stöðvar 2 skuli kynna dagskrá sína á HM á ensku og að Mogginn og Fréttablaðið skuli birta textann óbreyttan á síðum sínum. Dæmi: ,,Stöð 2 Sport 2: 18.30 Brazil and Mexico, 19.00: Russia, Cuiaba and South Korea. Blöðin standa sig illa í að lagfæra þetta ekki.” Það er hverju orði sannara. Þakka ábendinguna.
Nú er aðeins sagt: Fréttalestri er lokið í lok miðnæturfrétta Ríkisútvarpsins. Þulur er hættur að segja: Næstu fréttir verða klukkan sjö í fyrramálið. Sennilega skammast menn sín fyrir að leggja áherslu á hve þjónustan við hlustendur er léleg, – engar fréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Sjö klukkutímar án frétta í útvarpi allra landsmanna. Svona hegðar ekkert almannaútvarp, ríkisútvarp sér, – nema íslenska Ríkisútvarpið.
Í stuttum texta heilsíðu auglýsingar í Fréttablaðinu (16.06.2014) frá grískum flugvirkjaskóla eru villur. Þar segir til dæmis: Skólinn er staðsettur á El. Venizelos alþjóðaflugvöll í Aþenu. Ekki vönduð vinnubrögð hjá auglýsingastofunni sem lætur svona frá sér fara.
Í smáauglýsingu í sama blaði er talað um Kóranska bíla. Bílarnir koma Kóraninum ekkert við (varla að maður þori að nefna þetta!). Átt er við bíla frá Kóreu, kóreska bíla.
Af vef Keflavíkurflugvallar (16.06.2014): Við mælum með að farþegar komi til innritunar 2-2,5 klukkustundum fyrir brottför. Innritunarborð opna klukkan 4:30. Einhverjum finnst það kannski smámunasemi, en hvað eru 2,5 klukkustundir? Er það tveir og hálfur tími? Sennilega. Innritunarborð opna hvorki eitt né neitt. Innritun hefst klukkan 4:30. Mikið að ekki var sagt klukkan 4,5 !
Fjármálaráðherra talaði í fréttum Ríkisútvarps (16.06.2014) um að byggja undir lífskjörin í landinu. Hann átti sennilega við að treysta , bæta lífskjörin í landinu. Í fréttum sama miðils sama dag var oftar en einu sinni sagt að leikskólakennarar væru sáttir með nýjan kjarasamning. Formaður Félags leikskólakennara sagðist hinsvegar vera sáttur við samninginn. Það finnst Molaskrifara eðlilegra orðalag.
Af vef Ríkisútvarpsins (16.06.2014): Þyrlan flaug til móts við vélina og flaug með henni til Keflavíkur þar sem hún lenti heil á höldnu. venjulega segjum við … heilu og höldnu, – hélt Molaskrifari. http://www.ruv.is/frett/tilkynnt-um-velarvana-flugvel
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
22/06/2014 at 00:38 (UTC 0)
„Blöðin standa sig illa í að lagfæra þetta ekki.”“
Hvað ætli Björn hafi átt við?