Molavin skrifaði (15.06.2014): „10 ávanar hamingjusamra para“ segir í fyrirsögn þess helgarmogga, sem ber hið þjóðlega nafn Monitor. Málkennd og orðabók segja manni að „ávani“ þýði „slæm venja.“ Í greininni er hins vegar fjallað um 10 hollar lífsvenjur, sem einkenni hamingjusamt fólk í sambúð.- Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Hefnt verður fyrir þá sem féllu, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (14.06.2014). Molaskrifari hefði sagt: Þeirra sem féllu verður hefnt ….
Það var gaman að horfa og hlusta á ,,Lýðveldisbörnin” rifja upp minningar frá lýðveldisstofnuninni á Þingvöllum 1944 í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (17.06.2014) . Stuttur þulartexti hefði þolað yfirlestur.
K.Þ benti á þessa fréttir á visir.is (15.96.2014) http://www.visir.is/thekktasti-utvarpsmadur-bandarikjanna-latinn/article/2014140619408,
Þar segir meðal annars: „Þrátt fyrir að við vitum að hann er á betri stað og þjáist ekki lengur, erum við hjartasorg.“ Við erum hjartasorg! Það var og. Áður stóð reyndar í fréttinni: Erum við hjartbrotin, – í ensku fréttinni, sem þarna liggur að baki stóð we are heartbroken. K.Þ. spyr réttilega: Spelkur? Getur það verið að fréttabarnið sem þarna var að verki hafi notað Google þýðingavélina? Það hlýtur eiginlega að vera.
Ótrúlegt en satt. Íþróttafréttamenn Ríkissjónvarps halda áfram (16.06.2014) að bulla um gestgjafa Brasilíu ! Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu fer fram í Brasilíu. Brasilíumenn eru gestgjafar þátttökuþjóðanna. Gestgjafar Brasilíu er bara bull. Hverjir eru gestgjafar Brasilíu? verjir eru gestgjafar Brasilíu
Molaskrifari er ekki sáttur við það, þegar sagt er í Ríkisútvarpi eftir síðasta lag fyrir fréttir , að NN hafi sungið, en textinn verið eftir AA. Þetta heyrist ekki hjá reyndum þulum en nýgræðingar, eða lítt vanir, taka stundum svona til orða ( 16.06.2014). Daginn eftir, snemma að morgni þjóðhátíðardags voru að venju leikin og sungin ættjarðarlög. Þá talaði sami þulur um texta eftir Einar Benediktsson, Grím Thomsen og Pál Ólafsson. Sama gilti um um ljóð Stephans G., Steingríms o.fl. Það ætti einhver að benda konunni á að þetta orðalag er vart við hæfi, þegar rætt er um ljóð þjóðskáldanna. Kannski finnst einhverjum þetta sérviska hjá Molaskrifara.
Í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (14.06.2014) var sagt að Icelandair hefði fellt niður sextíu og fimm flug á mánudag. Átt var við 65 flugferðir. Ríkisútvarpið notar ævinlega orðalagið að flugferðir hafi verið felldar niður. Hrós fyrir það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar