«

»

Molar um málfar og miðla 1506

 

Úr frétt á mbl.is (27.06.2014): ,,Hann er 19 ára og hann ætl­ar að verða yngsti flugmaður­inn til að fljúga einn í kring­um heim­inn.”.

Skyldi fréttabarn þarna hafa notið aðstoðar þýðingarvélar Google? Það skyldi þó ekki vera. Fljúga einn í kringum heiminn. Ef til vill hefur staðið á ensku: fly alone around the world. Þessi ungi maður ætlar að fljúga umhverfis jörðina.

 

Molaskrifari er alveg hættur að vera hissa á því hve dagskrárstjórar Ríkissjónvarpsins eru fundvísir á efni á föstudagskvöldum sem honum finnst allsendis óáhugavert. Mynd um vináttu ,,óttalausrar músar, óhamingjusamrar rottu, einmana stúlku og prinsessu”. Svo kom mynd um sérkennilegt efni; hjarta konu, sem deyr er grætt í aðra konu ,og ekkillinn verður ástfanginn af hjartaþeganum! Ekki gat þetta með nokkru móti vakið áhuga Molaskrifara.

 

Í tilkynningalestri í Ríkisútvarpinu síðdegis á föstudag (27.06.2014) var minnt á herminjasafn á Reyðarfirði, þar sem stríðsminjar lifa við, las þulur, sem sennilega hefur fengið rangt ritaðan texta í hendur. Þarna var greinilega átt við: … þar sem stríðsminjar lifna við. Í sama tilkynningatíma var minnt á tónleika sem bandaríski tónlistarmaðurinn Wynton Marsalis heldur í Hörpu í næstu viku. Nafn hans var borið fram /vænton/ . Það er rangt. Nafn hans er borið fram /vinton/. Molaskrifari minnist þess að hafa heyrt þessa villu áður. Hversvegna lætur auglýsingadeild ekki framburðarreglur fylgja í þulartexta þegar um ný eða lítt kunn nöfn erlend nöfn eða heiti er að ræða? Það er vandalaust að finna réttan framburð á netinu. Menn þurfa bar að nenna að leita.

 

Orðið gæði er eintöluorð. Þessvegna á ekki að skrifa: ,,Þetta er eitt þeirra gæða, sem menn oft meta miður en skyldi ... “ (Pistill Styrmis Gunnarssonar í Morgunblaðinu (28.06 .2014) . Molaskrifara finnst að þetta hefði átt að orða á annan veg. Til dæmis, – Þetta er meðal þeirra gæða ,sem …. Styrmir Gunnarsson skrifar annars óaðfinnanlegan texta, þótt Molaskrifari sé ekki ævinlega sammála þeim skoðunum sem hann setur fram. En það er allt önnur Ella.

 

Í sunnudagsmogga (29.06.2014) stendur í myndatexta á bls.18:,,Að vetrarlagi leggur ís inn í margar hafnir á Grænlandi.” Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta: Margar hafnir á Grænlandi leggur að vetrarlagi? Eða þýðir þetta: Rekís berst inn á margar hafnir á Grænlandi að vetrarlagi. Óljóst.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (28.06.2014) var talað um mél sem geti valdið áverkum í munnum hrossa. Mollaskrifari hefði haldið að hér hefði átt að segja , – í munni hrossa.

 

Í fréttum Bylgjunnar (28.06.2014) var sagt frá manni sem synti samfellt í heilan sólarhring. Vísað var til síðunnar tuttugu og fjögurra stunda sund, en fréttamaður sagði að nánari upplýsingar væri að finna á síðunni, – tuttugu og fjórir stunda sund. Þarna vantaði hugsunina. Það voru ekki tuttugu og fjórir sem voru að stunda sund. Og á Bylgjunni er menn enn að tala um fylki í Bandaríkjunum.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Helgi. Rétt er það, gæði er fleirtöluorð, – ekki til í eintölu.

  2. Helgi Ólafsson skrifar:

    Bestu þakkir fyrir málverndina Eiður.
    Ég minnist þess ekki að hafa séð eða heyrt orðið gæði í eintölu. Hins vegar er algengt að heyra fólk tala um „góð gæði“ eða jafnvel „léleg gæði“ þegar til umræðu eru eiginleikar t.d. vöru. Það fer dálítið í taugarnar á mér. Gæði er þá þýðing á enska orðinu quality. Þarna vantar heppilegra orð.
    En ég held því fram að gæði sé fleitöluorð og ekki til í eintölu.

  3. Eiður skrifar:

    Kæar þakkir, Valgeir. Alltaf gott að heyra frá þér.

  4. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Kærar þakki, Eiður, fyrir þína frábæru pistla. Ekki veitir manni af slíku, á þessum síðustu og verstu…. En það var þetta með gæðin. „Flæktur læðing fátæktar, // FÁRRA gæða nýtur….“ orti Örn Arnarson. Og menn tala um öll gögn og gæði, þótt orðið gæði standi þar að vísu ekki í skilyrðislausri fleirtölu. En hvað um það: Gaman er að þessu!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>