Í kvöldfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (29.06.2014) var sagt: Tildrög slyssins eru óljós samkvæmt lögreglu. Molaskrifara finnst það ekki gott orðalag, þegar eitthvað er sagt vera svona og svona samkvæmt lögreglu. Einhver á fréttastofunni er á sama máli, því seinna var þessu breytt og sagt, að sögn lögreglu, sem er miklu betra.
Fólkið gat gengið í burtu frá vélinni, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (30.06.2014) um nauðlendingu lítillar flugvélar á Vatnsleysuströnd. Þetta er mjög enskulegt orðlag. Rétt eins hefði mátt segja: Fólkið komst út úr vélinni af sjálfsdáðum, eða fólkið komast hjálparlaust út úr flugvélinni.
KÞ vitnar (28.06.2014) í frétt á visir.is http://www.visir.is/mesti-verdbolgustodugleiki-i-aratug/article/2014140629092
Hann spyr: ,,Væri ekki nær að tala um stöðugt verðlag? „Verðbólgustöðugleiki“ vekur einna helst hugsun um stöðuga verðbólgu” Að sjálfsögðu væri það betra orðalag..
Úr Bakherbergi Kjarnans (26.06.2014): ,,Í Bakherbergjunum er því haldið fram að 150 til 200 sakamál, sem Símon hefur dæmt í, hafi verið áfrýjað til Hæstarréttar …”. Hér ætti að standa: ,,… að 150 til 200 sakamálum, sem Símon hefur dæmt í …” Fallafælni eða kæruleysi.
Útvarpsstjóri eða einhver yfirmaður hjá Ríkisútvarpinu þarf að samræma framburð starfsmanna á skammstöfuninni á heiti stofnunarinnar, RÚV. Sumir segja Rúff með tveimur f-um. Aðrir segja Rúúúv , með löngu ú-i og v-hljóði. Þá er það algjörlega á reiki hvað RÚV þýðir. Stundum er það eingöngu notað um Ríkissjónvarpið, en stundum um sjónvarpið og allar útvarpsrásirnar. Það væri gott að koma þessu á hreint. Hætta ofnotkun þessarar skammstöfunar og leyfa starfsfólki á ný að taka sér í mun hið rétta heiti stofnunarinnar, – Ríkisútvarpið. Forveri núverandi útvarpsstjóra virðist hafa bannað sínu fólki að nefna Ríkisútvarpið réttu nafni.
Á mánudagskvöld (30.06.2014) seinkaði seinni fréttum Ríkissjónvarp talsvert vegna þess að framlengja þurfti knattspyrnuleik sem verið var að sýna frá HM. Lítið við því að gera, fyrst ákveðið hefur verið að leggja dagskrá undir fótbolta daginn út og daginn inn. En það hefði verið hægt að sýna okkur áhorfendum kurteisi. Tilkynna seinkunina á skjáborða, sem er tæknilega mjög auðvelt. Fréttastjóri sem las seinni fréttir, hefði líka getað beðist afsökunar á seinkuninni. Fréttastjóri sagði bara: Við erum seinna á ferðinni … Það er sem sagt engin ástæða til að sýna okkur sem heima sitjum svolitla kurteisi.
Auglýst dagskrá er eins og gefið loforð. Það á að standa við hana. Ef hún riðlast og ekki verður við ráðið á að biðjast afsökunar og skýra málið. Það telur Ríkissjónvarpið sig ekki þurfa að gera.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar