«

»

Molar um málfar og miðla 1508

Í DV (0.1-03.07.2014) var smáfrétt um ábyrgð flugfélaga þegar farangur farþega skilar sér ekki. Þar segir:.. Ef að (svo!) taskan finnst ekki innan þriggja vikna er hún formlega ,,týnd” en á meðan er flugfélagið skuldbundið til að sjá farþegum fyrir nauðsynjavöru svo sem salernisvöru, nærfötum og öðrum nauðsynjum sem kunna að vera í töskunni.” Sjá farþegum fyrir salernisvöru! Er átt við salernispappír? Nei, sennilega ekki. Þetta hefur líkast til verið þýtt úr ensku þar sem talað hefur verið um toilet articles (snyrtivörur). Sá sem skrifaði hefur ekki skilið þetta eða notfært sér þýðingavél Google, sem lætur nú í vaxandi mæli til sín taka í íslenskum netmiðlum. Einkum er hún fréttabörnum kær.

Af dv.is (01.07.2014): ,,Þá ná fylgdarmennirnir að tryggja manninn. Lögreglubílar sem voru skammt frá Smáralind komu til aðstoðar og tóku við málinu.” – Fréttin var um árás á konu í Smáralind.,,Að tryggja manninn”, bull ! Væntanlega er átt við að tekist hafi að yfirbuga manninn. Og svo komu lögreglubílar til aðstoðar og lögreglubílarnir tóku við málinu! Ja, hérna! Enginn fullorðinn á vaktinni? Sjá http://www.dv.is/frettir/2014/7/1/logregla-segir-arasina-i-smaralind-tilviljunarkennda/

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (01.07.2014) var fjallað um áhuga bandarísku stórverslunarinnar Costco á að hefja starfsemi á Íslandi.

Í fréttinni var sagt að vöruverð væri almennt ódýrara i Costco

Við tölum ekki um dýrt eða ódýrt verð. Við tölum um hátt eða lágt verð.

 

Í tilkynningatíma í Ríkisútvarpi fyrir fréttir (01.07.2014) var sagt að hjálpartækja afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands væri opin frá klukkan 20 30 til klukkan 15 00 ! Þetta var lesið athugasemdalaust og ekki leiðrétt. Þetta var heldur ekki leiðrétt, þegar lesnar voru tilkynningar að fréttum loknum. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð. Af tilviljun hafði Molaskrifari haft samband við þessa stofnun sama dag og fengið þær upplýsingar að afgreiðslan væri opin frá klukkan 12 30 til klukkan 15 00. Ef fólk vill skila hjálpartækjum er þetta sem sagt eini tíminn sem kemur til greina og eini staðurinn þar sem hægt er að skila er á Vínlandsleið sem er næstum í Mosfellsbæ. Fremur slök þjónusta hjá stofnun sem á að þjóna almenningi.

Ekki amalegt að fá þá Wynton Marsalis og Eric Clapton í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (02.07.2014). Takk fyrir það. Svo er Marsalis sjálfur á sviðinu í Hörpu annað kvöld. Það er tilhlökkunarefni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>