Björn Jón Bragason skrifaði ((09.08.2014:
Sæll, Eiður. Mig langar að koma ábendingu á framfæri við þáttinn þinn um miðla og málfar, þar sem ég veit að þátturinn er mikið lesinn. Þannig er mál með vexti að ég, rétt eins og fleiri, notast við talhólf hjá Símanum hf. Þegar þangað er hringt er rödd sem les upp hversu mörg skilaboð sé að finna í talhólfinu hverju sinni. Röddin þylur upp: „Þú átt ein talskilaboð, tvenn talskilaboð, þrenn, fern o.s.frv.“ Á dögunum varð breyting á þessari tilteknu þjónustu Símans og um leið hefur textanum verið breytt og þess í stað er lesið: „Þú átt ein skilaboð, ,,tvö skilaboð”, ,,þrjú skilaboð”, ,,fjögur ….” o.s.frv.“ Mér þykir þessi breyting með hreinum ólíkindum. Hjá fyrirtækinu virðast menn hafa skilið áður að orðið skilaboð er fleirtöluorð og ekki hægt að tala um ,,eitt skilaboð”, svo dæmi sé tekið, en einhverra hluta vegna ákveðið að breyta þessu. Þessi rangi texti sker í mín eyru og ég er sjálfsagt ekki einn um það. Með bestu kveðjum, Björn Jón. Kærar þakkir, Björn Jón, – vonandi sér Síminn sóma sinn í að breyta þessu til fyrra horfs, – leiðrétta mistökin.
Á fréttastofu Stöðvar tvö halda menn áfram að kalla flugskeyti loftskeyti. Þar á bæ hafa menn sennilega aldrei heyrt talað um loftskeytastöðina í Reykjavík, – hún var á Melunum. Loftskeyrastöðin var alls endis óvopnuð. í sömu frétt á Stöð tvö var leiðinda þolmynd. Sagt var: Egyptalandsforseta er ekki treyst af Hamas. Miklu betra hefði verið: Hamas treystir ekki Egyptalandsforseta. Í fréttinni var sagt: Vopnahléið varð ekki framlengt. Vopnahléið var ekki framlengt.
Það var ágætt, en kannski dálítið óvenjulegt , orðalag í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps (09.08.2014) þegar sagt var: Mikill flaumur í gleðigöngunni. Flaumur er hópur á hreyfingu, segir orðabókin. Fólksflaumur.
Í miðnæturfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (10.08.2014) var okkur sagt að ÍR hefði sigrað bikarkeppni. Það er erfitt að ná þessu. Undarlegt hvað menn eiga erfitt með að ná því að enginn sigrar keppni.
Það var ágætt hjá fréttastofu Ríkisíútvarpsins í hádeginu á mánudag (11.08.2014) að tala um framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Framkvæmdastýra, sem stundum hefur heyrst ,er ámóta hallærislegt og orðið alþingiskona. Jafnréttisbarátta á villigötum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
13/08/2014 at 10:39 (UTC 0)
Sennilega finnst mér það sama og þér, Eirný. Þetta er ekki í lagi.
Eirný Vals skrifar:
12/08/2014 at 20:45 (UTC 0)
Sæll,
Ég þakka þér fyrir góða pistla.
Hvað finnst þér um þessa fyrirsögn
Þúsundir manna sitja enn fastar
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/12/thusundir_manna_sitja_enn_fastar_5/
Tekið af vef Morgunblaðsins seinni part þriðjudags.
Kveðja,
Eirný