«

»

Molar um málfar og miðla 1551

Molavin skrifaði (22.08.2014): „of­hitn­un hef­ur átt sér stað og ollið elds­voða.“ segir á mbl.is (22.8.2014). Mis-sögnin „að olla“ virðist hafa fest sig í sessi í fréttaskrifum. Hér tekur blaðamaður texta orðrétt upp úr fréttatilkynningu Neytendastofu. Þarna leiðir haltur blindan. „Ofhitnun hefur valdið eldsvoða,“ ætti að standa þarna.- Enn einu sinni ! Makalaust. Molaskrifari þakkar bréfið. Hér er fréttatilkynning Neytendastofu: http://www.neytendastofa.is/um-okkur/frettir-og-tilkynningar/frett/2014/08/21/Neytendastofa-vekur-athygli-a-innkolludum-orbylgjuofnum-hja-ELKO/

 

Guðjón Einarsson skrifaði (22.04.2014): ,,Þú hefur sjálfsagt fett fingur út í nýjustu tískukveðjuna: Eigðu góðan dag. Þessi ensk/ameríska kveðja (Have a good day)verður sífellt algengari og í raun er hvergi friður fyrir henni. Afgreiðslufólk í búðum kveður mann með þessum orðum og í sms skeyti frá N1 þar sem minnt er á einhverja afslætti á bensíni eru lokaorðin þessi: Eigðu góðan dag! Og samt er svo einfalt að segja „njóttu dagsins“ í staðinn og tekur ekkert meira pláss.” Molaskrifari þakkar Guðjóni bréfið og þarfa áminningu. Þetta hefur verið nefnt í Molum fyrir margt löngu. En gott að minna á þetta að nýju. Molaskrifari hefur lengi látið þetta fara svolítið í taugarnar á sér, en hugsað til þess að verið er að bera fram góða ósk, þótt orðalagið sé enskt/amerískt og heldur hvimleitt.

 

Fyrsti Vesturfaraþáttur Egils Helgasonar, sem Ríkissjónvarpið sýndi íá sunnudagskvöld (24.08.2014) lofar  góðu. Þættirnir verða  alls tíu. Myndvinnsla og framsetning með ágætum. Víða leitað fanga.  Það er tilhlökkunarefni að fá að  sjá og heyra meira um sögu og afdrif  Íslendinganna  sem fóru vestur um haf. Þar er mikil saga ósögð enn, þótt margt gott hafi verið skrifað og skráð.

 

K.Þ. skrifaði Molum /22.04.2014) og sagði:,, Í Speglinum í kvöld, í umræðu um lífsýni og rannsóknir, var talað um „bættari“ heilbrigðisþjónustu …” Molaskrifari þakkar bréfið og segir: Ja, hérna. Alltaf batnar það!

 

Hvernig er farið að því að rýma íbúa eins og sagt var frá í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.08.2014). Molaskrifari áttar sig ekki á því hvernig sú aðgerð fer fram. Vísa til athugasemdar sem Egill Þorfinnsson skrifaði um þetta við Mola 1550 og sjá má á www.eidur.is

 

Í leiðbeiningum um samgöngur á Menningarnótt,sem birtar voru í Fréttatímanum sem kom út á fimmtudag (21.08.2014) segir: ,, … ásamt því að aka að og frá Hlemmi þar sem allar venjulegar leiðir sem aka um miðbæinn munu stöðva”. Munu leiðirnar aka? Munu leiðirnar stöðva? Hvað munu þær stöðva? Fremur óvandað orðalag, – sennilega hrátt úr fréttatilkynningu frá aðstandendum Menningarnætur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>