Á laugardagskvöld (23.08.2014) var engu líkara en fréttastofa Stöðvar tvö væri farin á taugum í umfjöllun um eldgos eða ekki eldgos í Bárðarbungu. Það var óþægilegt, pínlegt, svo notað sé svolítið vafasamt orðalag að horfa á atlögur fréttamanns að Magnúsi Tuma á Reykjavíkurflugvelli. Það var líka hálfkjánalegt að horfa á þennan ágæta fréttamanna í einhverskonar ,,hættuvesti” í útsendingu í fréttatímanum. Fréttamenn verða að kunna sér hóf. Halda ró sinni.
Umfjöllun fréttastofu Ríkissjónvarps sama kvöld var miklu betri, ítarlegri og í meira jafnvægi.
Á listanum í Ríkissjónvarpi í lok útsendingar frá menningarnótt á laugardagskvöld (23.08.2014) var auðvitað ómetanlegt að fá upplýsingar um klæðnað Matthíasar að ekki sé nú talað um hár Matthíasar. Eftir að hafa meðtekið þann fróðleik hljóta áhorfendur að hafa sofið betur.
Í lok miðnæturfrétta Ríkisútvarps á laugardagskvöld (23.08.2014) var sagt, að fréttir yrðu fluttar á klukkutíma fresti alla nóttina. Gott. En þarf eldsumbrot, skjálfta og teikn sem benda til að eldgos gæti verið í uppsiglingu til þess að Ríkisútvarpið sinni þjónustuhlutverki sínu við okkur viðskiptavini þess ? Ríkisútvarpið á að flytja stuttar fréttir á klukkutímafresti allan sólarhringinn. Að sjálfsögðu. Það á ekki að þurfa eldgos eða möguleika á eldsgosi til.
Af visir.is (24.08.2014): Fjöldi mála komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á menningarnótt en lögregla áætlar að gestir í miðborginni hafi verið um 100 þúsund þegar mest var. Hér hefði farið betur á því að segja annaðhvort, – Fjöldi mála kom til kasta lögreglunnar … , – eða, mörg mál komu til kasta lögreglunnar …
Í fréttum Stöðvar tvö (24.08.2014): var sagt að áheyrendur hefðu verið mættir við tónleikasalinn áður en húsið opnaði. Húsið opnaði hvorki eitt né neitt, en á auglýstum tíma var húsið opnað.
Í Ríkisútvarpinu og á fréttavef Ríkisútvarpsins var (25.08.2014) sagt frá því að þýðingarmiðstöð hefði opnað á Seyðisfirði. ,,Ný starfsstöð þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins opnaði á Seyðisfirði í dag”.Opnað hvað? Það fylgdi ekki sögunni. http://www.ruv.is/frett/thydingarmidstod-opnar-a-seydisfirdi
Sumir fréttamenn virðast alls ekki geta haft þetta rétt.
Rúv auglýsti eftir svæðisstjóra Rúvak á mánudag (25.08.2014) . Er ekki hægt að tala við okkur nema með skammstöfunum?
Í prentaðri sjónvarpsdagskrá, Vikudagskránni, sem dreift er á öll heimili í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði er sagt, að Kastljós sé á dagskrá Ríkissjónvarps á mánudags og þriðjudagskvöld í þessari viku. Það er rangt. Ekki vönduð vinnubrögð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar