Molavin skrifaði (24.08.2014): ,,Á NetVísi segir (24.8.2014): „Vissara að kasta af sér vatni áður en Justin stígur á stokk.“ Því fer fjarri að þetta sé undantekning í máli fréttabarna, sem rugla saman að stíga á stokk og stíga á svið. Í nokkrum bókum Íslendingasagna er talað um að síga á stokk og strengja heit og sú merking hefur lifað í málinu. En nú er öldin önnur og reiðareksmönnum hefur tekizt að brengla málvitund nýrrar kynslóðar.
Á Vísindavefnum segir svo: Í Íslenskri orðabók frá Eddu kemur fram að orðið stokkur var til forna notað um pall innan húss sem var hlaðinn upp af bjálkum. Á þessa palla stigu menn og strengdu heit sín í vitna viðurvist.“ Kannski hét Justin Timberlake eilífri tryggð sinni við Ísland og Íslendinga þá hann steig á stokkinn í Kórnum þetta kvöld. Alla vega lofaði hann landið í myndtísti sínu fyrr um daginn.”Molaskrifari þakkar bréfið og þarfa ábendingu.
K.Þ skrifaði (25.08.2014): ,,Sigurjón M. Egilsson hefur verið ráðinn fréttaritstjóri 365, og heyrir því yfir þá Breka og Andra, og Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi 365, mun gegna starfi aðalritstjóra tímabundið.“
http://www.ruv.is/frett/olafur-maetti-a-ritstjornarfund-siddegis
Ég kannast við orðalagið að heyra undir, en þessi notkun, að heyra yfir, er ný fyrir mér. “ Þetta nýtt fyrir fleirum , enda út í hött að taka svona til orða. Molaskrifari þakkar bréfið.
Og hér er meira frá Molavin (25.08.2014): ,,Orðskrúð færist í vöxt í auglýsingum. Það gerir sjaldnast nokkuð til að koma skýrum boðum á framfæri. Er öllu fremur gert til þess að flytja óskýr skilaboð, láta eitthvað hljóma betur eða „fínna“ en það er. „Securitas er leiðandi fyrirtæki í eftirlitsmyndavélalausnum“ segir í borða sem birtist á Google síðu. Það fer ekkert á milli mála þegar menn bjóða eftirlitsmyndavélar, þótt orðið sé langt og ólipurt. En menn eru engu nær þótt þeim séu boðnar „eftirlitsmyndavélalausnir.“ Hver er þá gátan? Orðskrúð endar oft sem hreint bull. Sá, sem ekki hugsar skýrt, tjáir sig óskýrt.” Hverju orði sannara. Þakka bréfið.
Úr frétt Ríkissjónvarps á mánudagskvöld um poppstjörnuna Justin Timberlake, – ,,… en þessi þrjátíu og þriggja ára poppgoði hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu”. Hér vantaði aðeins upp á vandvirknina.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar