Úr Kjarnagrein, sem vísað var til á fésbók á þriðjudag (09.09.2014) um skattsvik nafngreindra einstaklinga: Fólkið stóð ekki skil á greiðslu opinberra gjalda sem það hafði haldið aftur af launum starfsmanna sinna á árunum 2011 og 2012. Opinberum gjöldum var ekki haldið aftur af launum starfsmanna. Gjöldunum var haldið eftir af launum starfsmanna. Meira úr sömu grein: Í tilkynningu til fyrirtækjaskráar frá því í febrúar 2013 kemur fram að allt hlutafé í M-veitingum hafi verið afsalað til Ásgerðar. Hér hefði átt að segja að öllu hlutafénu hefði verið afsalað. Þessa grein hefði þurft að lesa betur yfir áður en hún var birt.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG sendi frá sér fréttatilkynningu um fjárlagafrumvarp næsta árs. Mbl. greindi frá þessu (09.09.2014). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/09/frjalshyggjutilraun_i_fjarlagafrumvarpi/ Í frétt mbl.is segir: „Þetta þýðir í raun að Ísland færist úr flokki með Norðurlöndunum, þar sem samneyslan er alls staðar um eða yfir 30%, yfir í hóp þjóða þar sem velferðarkerfið er mjög veikt,“ lætur Katrín hafa eftir sér í tilkynningunni.” Þetta er dálítið undarlegt orðalag hjá mbl.is. Katrín lætur ekki hafa eftir sér. Hún segir ofangreint í fréttatilkynningunni.
Þegar nafnalisti er birtur á skjánum í lok sjónvarpsþáttar, myndar eða útsendingar er það gert til að áhorfendur geti séð hverjir hafi unnið myndina, þáttinn eða unnið við útsendinguna. Í lok beinnar útsendingar frá þingsetningu á þriðjudag (09.09.2014) kom nafnalisti á skjáinn. Meðal annars voru þar nöfn þeirra tónlistarmanna, sem fluttu tónlist við þingsetninguna. Nöfn tónlistarfólksins voru hinsvegar ekki á skjánum nema í 3-4 sekúndur. Sama var um önnur nöfn. Ekki var vegur að lesa nema eitt eða tvö nöfn. Þetta jaðrar við ókurteisi bæði við þá sem hlut eiga að máli og þá sem horfa. Þetta endurtók sig í lok útsendingar frá umræðum á Alþingi í gærkvöldi (10.09.2014).
Í lok frétta Ríkissjónvarps á þriðjudag (09.09.2014) voru sýndar myndir frá áhugaverðri sýningu um Auði Sveinsdóttur Laxness.
En hvað réði tónlistarvalinu og textanum sem sunginn var með myndunum:
,,Ég labbaði inn á Laugaveg um daginn,
ljúfri mætti ég og heilsaði snót.
„Var hún lagleg? Var hún stór?
Var hún holdug?” Jeríór.
Hún var sívöl sem hálfflaska af bjór.”
Ekki er nema von að spurt sé hvað þetta eigi að þýða? Er þetta hluti af einhverri nýsköpun nýrra stjórnenda í Efstaleiti? Hvert var tilefnið? Hver er tengingin? Molaskrifara fannst þetta eiginlega vera dónaskapur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar