Molavin skrifaði (10.09.2014): ,,Morgunblaðsfrétt (10.9.2014) hefst á þessum orðum: „Metfé var greitt fyrir gamlan Range Rover á uppboði í Englandi um helgina.“ Orðið „metfé“ merkir ekki met upphæð heldur kostagripur. Þetta hefur verið nefnt hér áður. Enn er hér á ferð dæmi um að fjölmiðlafólk slái um sig með gömlum orðum og hugtökum, sem það þekkir ekki. Daginn áður sagði þáttargerðarmaður á Rás 2 að tiltekin hljómsveit myndi stíga á stokk við kynningu á nýjum Apple símum. Þar var átt við að hún myndi leika uppi á sviði – ekki að ætlunin væri að strengja þar heit”.-
Og svo bætti Molavin við:,, Verð að bæta við örlitlu úr Sunnudagsmogga. Þar stendur í undirfyrirsögn m.a.: LÉTUST ÞRJÚ BÖRN HÉR Á LANDI VEGNA DRUKKNUNAR“. Nafnorðasýkin og setningaskipan að enskum hætti tröllríður nú fréttaskrifum. ÞRJÚ BÖRN DRUKKNUÐU hér á landi á umræddu tímabili. Er það virkilega orðið erfitt fyrir yngri kynslóð fréttafólks að skrifa almennt mál?” Molaskrifari þakkar Molavin þessar ágætu ábendingar. Vonandi lesa þeir þetta ,sem þessum orðum er beint að.
Orðið kauði, segir orðabókin, að þýði kurfur, leiðindapési, álappalegur maður. Sá sem skrifaði þetta um David Attenborough á mbl.is (09.09.2014) veit greinilega ekkert hvað orðið kauði þýðir: ,,Upptökur af upplestri Attenboroughs voru einnig notaðar á viðburðum Biophiliu-tónleikaferðalagsins og er ég sannfærður um að áhrif kauða á bíógesti séu öflugri en á tónleikagesti. Ég hefði jafnvel verið til í að heyra meira í sjónvarpsmanninum geðþekka þegar leið á myndina, ekki eingöngu í upphafi.” Þeir sem skrifa í fjölmiðla eiga ekki að nota orð sem þeir ekki skilja; vita ekki hvað þýða.
Leiðaraskrif Fréttablaðsins hafa sett ofan eftir að Ólafur Stephensen, ritstjóri, var hrakinn frá blaðinu. Sjaldgæft er að sjá leiðarahöfund jafn rækilega tekinn til bæna í kurteislegri grein eins og Arnór Sighvatsson aðstoðar seðlabankastjóri gerði á miðvikudag (10.09.2014). Sjá: http://www.visir.is/athugasemdir-vid-leidara-frettabladsins/article/2014709109981
Mótorkrosshjóli stolið af níu ár dreng, segir í fyrirsögn á visir.is. (10.09.2014) Hvorki stal drengurinn hjólinu, né var því stolið af honum. Hjólinu var stolið frá honum. Ekki vel sagt. Sjá: http://www.visir.is/motorkrosshjoli-stolid-af-niu-ara-dreng-fadirinn-svelti-sig-til-ad-eiga-fyrir-hjolinu/article/2014140919952
Rafn sendi eftirfarandi (09.09.2014) : ,,Í haust tók Ingunnarskóli í Grafarholti upp á þeirri nýbreytni að láta nemendur á unglingastigi mæta seinna í skólann, með því markmiði að aðlaga svefnvenjur unglinganna að skólstarfinu. Bæði nemendur og skólastjórnendur eru afar ánægðir með þessa nýbreytni.”
Rafn segir síðan:,,Þessi byrjun er á frétt á vef Eyjunnar. Þar er talað um að verið sé að aðlaga svefnvenjur unglinga að skólastarfi. Samkvæmt lýsingu virðist hins vegar verið að aðlaga skólastarfið að svefnvenjum unglinga. Niðurstaðan ætti í báðum tilvikum að verða samræmi, en það munar töluverðu á hvors forsendum samræmingin er.” Rétt. Molaskrifari þakkar Rafni sendinguna.
Ekki er talið að orðið hafi slys á fólki, þegar gestur sem kom til viðtals í Morgunútgáfuna í Ríkisútvarpinu í morgun (12.09.2014) ,,var að detta inn í húsið”, eins og umsjónarmaður orðaði það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar