Á miðvikudagskvöld (10.09.2014) birti Stöð tvö í fréttum ótrúlegar tölur um þann kostnað sem krabbameinsjúklingar verða að greiða úr eigin vasa vegna veikinda sinna. Svona getur heilbrigðiskerfið okkar ekki átt að vera. Stöð tvö á þakkir skildar fyrir að skýra frá þessu.
Okkar bíða óleystar áskoranir, sagði forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í stefnuræðu sinni (10.09.2014). Óleystar áskoranir? Leysa menn áskoranir?
Sigmar Guðmundsson í Kastljósi mætti vel undirbúinn til viðtals við forsætisráðherra SDG í Kastljósi á fimmtudagskvöld (11.09.2014). Sigmar kann þá list að hlusta og spyrja. Það kunna fáir fréttahaukar. Flestir bara spyrja. Þessvegna komast viðmælendur oft upp með að svara ekki því sem um er spurt. Forsætisráðherra fær ekki háa einkunn fyrir frammistöðuna í þessu Kastljósi. En hann er nokkuð snjall við að fara undan í flæmingi, og snúa útúr, þegar gengið er á hann.
Molaskrifari fer þess enn einu sinni á leit við ágætan fréttamann Stöðvar tvö að hann læri að segja saksóknari. Þannig að við sleppum við að heyra aftur og aftur talað um saksónara. Eins og var gert í fréttum á miðvikudagskvöld (10.09.2014). Ætti ekki að vera flókið.
Forsíðufrétt Garðapóstsins (11.09.2014) var að bæjarstjórinn í Garðabæ ætlaði að hjóla um Garðahraun þriðjudaginn 16. september. Til að laða að áhorfendur segir í fréttinni:,,Stoppað verður á tveimur stöðum og boðið upp á drykki”. Það er sannarlega enginn skortur á stórtíðindum hjá okkur í Garðabæ.
Bæði á mbl.is og ruv.is var sagt (11.09.2014) að spretthlauparinn Oscar Pistorius hefði verið sýknaður af ákæru um að hafa myrt unnustu sína af yfirlögðu ráði. Hefði átt að vera að yfirlögðu ráði, af ásetningi. Þetta var fljótlega leiðrétt á mbl.is en ekki á fréttavef Ríkisútvarpsins. http://www.ruv.is/frett/pistorius-syknadur-af-mordakaeru Er þó Ríkisútvarpið með sérstakan málfarsráðunaut. Undir miðnætti var þetta orðalag enn óbreytt á vef Ríkisútvarpsins og búið að bæta við annarri frétt þar sem einnig var talað um morð af yfirlögðu ráði. Sá þetta enginn? Hvar er gæðaeftirlitið?
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins að morgni fimmtudags (11.09.2014) rétt fyrir klukkan sjö talaði umsjónarmaður þrívegis um standard áður en leikið var gamalt, sígilt dægurlag. Standard er ekki íslenska. Standard er enska. Í ensku máli er það stundum notað um gömul sígild lög, þótt höfuðmerkingin sé önnur. Hversvegna notar umsjónarmaður þetta enska orð? Er þetta kannski nýtt heiti á síðasta lagi fyrir (sjö)fréttir á morgnana? Nýir siðir með nýjum herrum.
Rafn benti á eftirfarandi af mbl.is (10.09.2014): ,,Unglingsdrengur liggur alvarlega slösuð á sjúkrahúsi í Róm eftir að hann féll fimm metra niður af girðingu í kringum hringleikjahúsið Colosseum.” Hann segir: ,,Þetta skýrir sig sjálft”. Rétt er að geta þess að síðar var þetta leiðrétt.
Klukkan vantar tuttugu og átta mínútur í átta, sagði umsjónarmaður Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu (12.09.2014). Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Sama morgun var okkur líka sagt að klukkan væri fjórar mínútur yfir átta þegar hún var fjórar mínútur yfir sjö. Það var ekki leiðrétt. Hvernig væri að vanda sig? Eða leiðrétta mismæli? Það er auðvitað ekki hægt, ef enginn heyrir.
Nokkrum sinnum að undanförnu hefur Molaskrifari, sem hlustar mikið á fréttir í Ríkisútvarpinu, orðið þess var að í útsendingu vantar upphaf fréttatímans. Þetta gerðist til dæmis á miðnætti á fimmudagskvöld. Engin afsökun, engin skýring. Er þetta kannski vegna þess að verið er að einfalda ,,tæknikeyrsluna” eins og útvarpsstjóri sagði á dögunum?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
14/09/2014 at 22:29 (UTC 0)
Sæl Eirný. Ég hjó eftir þessu líka. Það var ekki einu sinni og ekki tvisvar , – heldur oftar talað um fyrstu úrslit. Sem er út í hött.
Eirný Vals skrifar:
14/09/2014 at 21:24 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Í dag var kosið í Svíþjóð.
Í fréttum þar um hefur mér margoft heyrst að sagt væri, fyrstu úrslit …..
þannig að ég fór á vef útvarpsins og fann frétt þar sem m.a. stóð
,,Kjörstaðir verða opnaðir í fyrramálið og fyrstu úrslit verða að líkindum ljós um kvöldmatarleytið á morgun.“
Sjá vef
http://www.ruv.is/frett/utlit-fyrir-stjornarskipti-i-svithjod
Kveðja,
Eirný
Jón skrifar:
13/09/2014 at 15:33 (UTC 0)
„Standard er ekki íslenska. Standard er enska. “ Og danska, norska sænska, þýska, franska o.s.frv. Ættað úr fornfrönsku las ég einhvers staðar.