Sú spurning, by the way , reyndist krökkunum mjög auðveld, … sagði íslenskur embættismaður (deildarstjóri innlendra prófa hjá Námsmatsstofnun) úr skólakerfinu í hádegisfréttum Ríkisútvarps (06.11.2014). Hann var að verja illa samið íslenskupróf ,sem lagt var fyrir nemendur á samræmdum prófum í grunnskólum.
Aftur og aftur talaði fréttamaður Stöðvar tvö um vissaukaskatt í fréttum (06.11.2014) Er þetta ný skattur? Ef til vill var hann að reyna að segja virðisaukaskattur. Talþjálfun gæti komið að góðu gagni.
Í Samfélaginu á Rás eitt (06.11.2014) var vitnað í ummæli á fréttavef BBC. Lyfjaiðnaðurinn hátt uppi af bólgnum gróða. Á vef BBC mun hafa verið sagt: The pharmaceutical industry gets high on fat profits. Kannski hefði mátt segja, að lyfjaiðnaðurinn væri í vímu vegna ofsagróða.
Það var hálf dapurlegt að heyra íslenskan dagskrárgerðarmann Ríkissjónvarpsins babla ensku við Færeyinga í þætti á fimmtudagskvöld. Heimsóknin til Péturs Nólsö, Péturs Noll, eins og Færeyingar segja, var það bitastæða í þættinum , enda ekki hægt að gera vont sjónvarpsefni úr Pétri eða heimsókn til hans. Jafnvel mesti klaufi gæti það ekki.
Undarlega eru stundum dagskrárkynningar Ríkissjónvarps. Á miðvikudagskvöld (05.11.2014) var tönnlast á því að annað kvöld yrði sýndur þáttur með Edduverðlaunahafanum Andra Frey á flandri um Færeyjar. Molaskrifari man ekki betur en margir Edduverðlaunahafar séu þáttagerðarmenn í Ríkissjónvarpi. Án þess að það sé útmálað aftur og aftur í hvert skipti sem þeir koma fram. Hafa ekki Sigmar og Kastljós fengið Edduverðlaun? Og fleiri. Og fleiri. Ekki er tönnlast á því í dagskrárkynningum. Kannski er þetta bara kjánagangur og hégómagirnd. Ef einhver velkist í vafa um merkingu orðsins hégómagirnd, þá er bara að fletta upp í orðabók: ,,Þrá eftir fáfengilegum hlutum sem snúast um eigin persónu”
Í þættinum, sem nefndur er hér að ofan var okkur sagt, að höfuðstaður Færeyja, Þórshöfn, væri staðsettur á stærstu eyjunni Straumey … Allt er nú staðsett. Þórshöfn er á Straumey, sem er stærst Færeyja.
Það er í góðu lagi að hlusta á vel fluttar auglýsingar/tilkynningar í Ríkisútvarpi. Þar er stundum eitthvað fréttnæmt. Leiknu auglýsingarnar, þar sem stundum er gargað á okkur af einstakri ósmekkvísi, eru hinsvegar skemmdarverk á Rás eitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
12/11/2014 at 09:24 (UTC 0)
Nei, Unnur. Það er engin furða. Svo sannarlega ekki.
Unnur Skúladóttir skrifar:
12/11/2014 at 00:05 (UTC 0)
Er furða þótt villur séu í gerð íslensku prófa svo sem í samræmdu prófunum nú nýverið þegar kennarar (með íslensku sem sérsvið) segja: “ mér kvíður fyrir eða mér kvíðir fyrir“ í stað ég kvíði fyrir. Þetta sögðu tveir kennarar Í þættinum vikulokunum á rás 1 hjá Ríkisútarpinu s.l. laugardag þ.e. 8. nóv. 2014.