«

»

Molar um málfar og miðla 1614

Í fréttum að undanförnu hefur aftur og aftur verið talað um að neita fyrir eitthvað í merkingunni að neita einhverju hafna einhverju. Sjá til dæmis Fréttablaðið bls. 4 á fimmtudag (13.11.2014) Kannski er hér verið að rugla notkun sagnarinnar að neita, saman við að þræta fyrir eitthvað. Molaskrifari kannast ekki við þetta orðalag, – að neita fyrir.

Svo hefur undanfarna daga verið talað um lúkningu málsins. Játningu aðstoðarmanns innanríkisráðherrans. Þessa notkun orðsins lúkning hefur Molaskrifari ekki heyrt eða séð áður. Átt var við lyktir máls, málalyktir, málalok. Orðið lúkning hefur hann hingað til aðeins heyrt merkingunni fullnaðargreiðsla, lúkning skuldar.

 

Rafn skrifaði (13.11.2014): ,,Sæll Eiður.

Tvöföld neitun getur verið viðsjárverð. Samkvæmt neðanritaðri klausu úr Netmogga kom markvörður Belga í veg fyrir „að Íslendingar skoruðu ekki meira en eitt mark“ í tilgreindum boltaleik. Þetta er rangt. Íslendingar skoruðu eitt mark.

Hér hefði átt að segja: kom í veg fyrir að Íslend­ing­ar skoruðu meira en eitt mark . . .  Þarna var einu litlu ekki ofaukið.”   Rétt ábending. Kærar þakkir, Rafn. – Sjá: http://www.mbl.is/sport/efstadeild/2014/11/12/courtois_island_kom_mer_a_ovart/

 

Alltaf er fróðlegt að hlusta á Boga Ágústsson fjalla um erlend málefni á fimmtudagsmorgnum. Þar koma löng reynsla og þekking að góðu haldi. Í gær (13.11.2014) var hann með fróðlegt yfirlit um stjórnmál á Grænlandi í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Molaskrifari reynir að missa ekki af þessum pistlum Boga. Þeir eru reyndar einnig aðgengilegir á netinu.

 

KÞ benti á eftirfarandi og skrifaði  (13.11.2014): http://www.visir.is/thurfti-ad-stokkva-vegna-funds-tengdum-fundi/article/2014141119484

Fyrirsögnin er: „Þurfti að stökkva vegna fundar tengdum fundi“. Það er eins og blaðamenn geti ómögulega lært að beygja orðið „tengdur“ rétt. (Sjá einnig orðalag í vefslóð.)

 

 

Stundum fullyrða fréttamenn meira en innistæða er fyrir. Í Kastljósi á miðvikudagskvöld (12.11.2014) var sagt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði lýst fullkomnum stuðningi við innanríkisráðherra. Fullkominn stuðningur ætti að vera einróma stuðningur allra. Það kom hvergi fram.

Meira um sama mál: Í Síðdegisútvarpi á Rás tvö sama dag var innanríkisráðherra spurð hvort hún stæði við þau ummæli sín að Lekamálið svonefnda hefði verið ljótur pólitískur leikur. Ráðherra kom sér fimlega hjá að svara og spurningunni var ekki fylgt eftir. Að minnsta kosti var það ekki að heyra, þegar efnið var endurtekið í Speglinum. Spyrlar eiga að fylgja spurningum eftir. Ganga eftir svari. Til hvers er annars verið að spyrja?

 

Karlar hugsa ekkert mikið um jólakort eða jólagjafir, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarspins í morgun (14.11.2014). Fordómar? Sleggjudómur? Er þetta ekki eins misjafnt og mennirnir eru margir?

 

Miðvikudagskvöldið (12.11.2014) var þriðja kvöldið í röð sem seinni fréttir Ríkissjónvarps ekki hófust á réttum tíma. Sjónvarpsmenn ættu að taka kollega sína á útvarpinu sér til fyrirmyndar. Þar er stundvísin nánast óbrigðul. Sama gildir um þær erlendu sjónvarpsstöðvar sem okkur eru aðgengilegar t.d. í sjónvarpi Símans. Þar er stundvísin í hávegum höfð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>