Þegar ferjan fór að halla ískyggilega, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (11.11.2014). Betra hefði verið: Þegar ferjunni fór að hall ískyggilega, eða þegar ferjan fékk ískyggilega mikla slagsíðu. Í sama fréttatíma var sagt: Yfirgnæfandi hluti félagsmanna kaus með verkfallsaðgerðum ... Betra hefði verið: Yfirgnæfandi hluti félagsmanna greiddi atkvæði með verkfallsaðgerðum …
T.H. sendi eftirfarandi vegna fréttar á mbl.is (12.11.2014): „Þeir Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa 17. maí 2012 veist í sameiningu með ofbeldi á fanga á Litla-Hrauni …“
Þeir … hafa … veist … á fanga.
Jæja, já. – Það var og! Þakka sendinguna. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/12/enn_engir_yfirmatsmenn_domkvaddir/
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (11.11.2014) var talað um að sýkna fyrir. Menn eru dæmdir fyrir … sýknaðir af ákæru … Þetta var hárrétt í fréttum klukkan átta þennan morgun. Í ofangreindum þætti var einnig sagt um fréttaritarann í París að hann ætlaði að heyra í okkur. Eðlilegra hefði verið að segja að við ætluðum að heyra í Frey Eyjólfssyni fréttaritara í París. Leggja þarf meiri rækt við vandað málfar í þessum þætti. Umsjónarmenn eru misvel mál farnir.
Allar stöðvar slökkviliðsins hafa verið boðaðar á staðinn, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps um eldsvoða í Bankastræti (11.11.2014). Stöðvar eru ekki boðaðar á staðinn! Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út.
Hér hefur áður verið spurt: Hvað gengur seljendum BKI kaffis til með því að sýna íslenska fánann í hálfa stöng, þegar þeir auglýsa kaffið sitt? Fáni í hálfa stöng táknar fyrst og fremst sorg eða missi. Það er flaggað í hálfa stöng, þegar einhver kunnugur eða nákominn deyr. Það er líka siður að flagga í hálfa stöng meðan útför fer fram. Óskiljanlegt í kaffiauglýsingu og ekki fallegt á skjánum.
Í upp hafi fréttatíma Ríkisútvarpsins klukkan 1600 í gær (12.11.2014) var sagt: Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi fullan stuðning þingflokksins. Þetta var ekki rétt. Rætt var við Bjarna örstuttu síðar. Hann sagðist styðja Hönnu Birnu og kvaðst hafa fundið fyrir miklum stuðningi í þingflokknum. Þetta rímar ekki alveg saman. Ekki nákvæm eða vönduð vinnubrögð. http://www.ruv.is/sarpurinn/siddegisfrettir/12112014-0
Mér langar …, sagði innanríkisráðherra í sjónvarpsviðtali á miðvikudags kvöld (12.11.2014). Það var og.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
13/11/2014 at 17:22 (UTC 0)
Það er nú eiginlega óskiljanlegt, Sigurður!
Sigurður Karlsson skrifar:
13/11/2014 at 13:49 (UTC 0)
Þurfti að stökkva vegna funds tengdum fundi:
http://www.visir.is/thurfti-ad-stokkva-vegna-funds-tengdum-fundi/article/2014141119484
Hvernig er hægt að skrifa svona – og birta það?