Það er fjallað um þetta mál grúndígt í Morgunblaðinu í dag, (10.11.2014) var sagt í Morgunútgáfunni á Rás eitt. Allsendis óþörf sletta. Í sama þætti var einnig talað um bókakaffibókabúð. Molaskrifari hélt að bókakaffi væri bókabúð og kaffihús. Líka var sagt var því að bíll hafi ekið á ljósastaur og starfsmenn Orkuveitunnar hefðu verið kallaðir út til að tryggja ljósastaurinn ! Eru þeir farnir að sjá um tryggingar hjá Orkuveitunni? Voru þeir ekki kallaðir út til að loka fyrir rafmagn í staurinn? Í vaxandi mæli éta fjölmiðlungar þessa notkun sagnarinnar að tryggja hver eftir öðrum og kannski eftir lögreglunni. Bíllinn ók heldur ekki á ljósastaur. Bílnum var ekið á ljósastaur. – Það var fleira athugavert í upphafi þessa þáttar. Umsjónarmaður sagði að samningafundur í Kópavogsdeilunni hefði staðið í alla nótt og verkfalli verið afstýrt. Þarna virtist allt vera í hnúti. Og verkfallið héldi áfram! Deilan var leyst og ekkert var lengur í hnút. Fólk verður að skilja það sem það les eða segir við okkur. Fleira mætti tína til. Til dæmis það sem sagt var um gasdreifingu frá eldstöðvunum eystra. Ef umsjónarmaður hefði skoðað vef Veðurstofunnar ( eins og hvatt var til!) hefði hann ekki sagt að daginn eftir (11.11.2014) væri spáð vestlægri átt og gasmengun á Vestfjörðum! Það var einmitt ekki spáð neinni gasmengun á Vestfjörðum. Þarna skortir því miður stundum árvekni, skilning og vandvirkni. Ríkisútvarpið á að geta gert betur en þetta.
Oft hefur Molaskrifari lúmskt gaman af að lesa víndóma. Í Fréttatímanum (07.-09.11.2014) vakti þessi fyrirsögn athygli hans: Smakkaðu nokkur vín samtímis. Það er líklega einskonar vínblanda, eða kokkteill, eða hvað? Öllu hellt saman? Ekki mjög freistandi. Síðan segir um tiltekið vín: ,, … úr Carmenereu þrúgunni sem er sólfrek og virðist henta vel til ræktunar þar því þetta er afbragðsvín. Berjaríkt og kryddað, eilítið lokað til að byrja með en klárlega í mildari kantinum og með skemmtilegum vanillukeim sem rúnnar vínið vel upp í lokin. Hentar vel með kjötmeti, jafnvel léttari bitum.” . Ef Molaskrifari á að vera hreinskilinn þá finnst honum þetta, eins og víndómar svo oft, hálfgert bull.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (10.11.2014): Uppgötvunin var gerð fyrir hálfgerða slysni þegar vísindamenn voru að rannsaka vírusa sem finnast í hálsum fólks. Molaskrifari hélt að hver maður hefði bara einn háls.
Eftirfarandi var haft eftir þingmanni Pírata á vef Ríkisútvarpsins í gær (11.11.2014): „Ég fæ ekki tilfinningum fyrir heildinum í viðbrögðum ráðherrans – ég vil alltaf gefa fólki séns .…” Skilur einhver þetta?
Meira af fréttavef Ríkisútvarpsins. Viðtengingarhátturinn vefst fyrir sumum. Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, forstjóri LÍN, segir í samtali við fréttastofu að ef af verkfalli verði er ljóst að LÍN greiði ekki út námslán fyrr en niðurstöður prófa liggi fyrir. Hér ætti að standa – sé ljóst, – ekki er ljóst. Ekki satt?
Kvöld eftir kvöld seinkar seinni fréttum Ríkissjónvarpsins. Afsakanir í upphafi fréttatíma, en engar skýringar. Hvað veldur? Kæruleysi? Stundvísi í dagskrá er mikið metnaðarmál sjónvarpsstöðva. Ekki þó í Efstaleiti. Undarlegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar