«

»

Molar um málfar og miðla 1689

Ágúst Ragnarsson sendi eftirfarandi (03.03.2015). Hann lét fylgja að hér væri ekki um beina tilvitnun að ræða heldur væri þetta samandregið úr 2-3 viðtölum, en sett fram til að sýna dæmi um óvandað málfar:

,,Dæmi um ofnotkun og aukaorð. Viðmælandinn: HEYRÐU ! liðið inniheldur, hérna, marga frábæra, hérna, leikmenn og framkvæmdu leikmenn mínir , hérna, vel vítaköstin, sem var sterkari aðilinn sko!” Hann segir: ,, Þetta „heyrðu“ í byrjun viðtals er orðið útbreitt, og svo er mikið um „innihald“ og menn „framkvæma“ nú alla hluti og „aðilar“ eru mjög algengir. Ekki gleyma „sko“ í þriðja hverju orði og „hérna“ í öðru hverju. Norskur vinur minn sem dvelur stundum á Íslandi spurði mig einmitt um hvað þetta „jénna“ þýddi. Svar óskast. “

Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta og svipað orðalag hefur maður því miður of oft heyrt.

 

Íslendingar á tánum vegna silfurvasa, sagði í fyrirsögn á mbl.is. Þessi fyrirsögn er út í hött. Að vera á tánum hefur í vaxandi mæli verið notað að undanförnu um það að vera á varðbergi, hafa gætur á sér eða einhverju. Sú notkun er reyndar ekki til fyrirmyndar eða að smekk Molaskrifara. Í þessari frétt er verið að fjalla um kaupæði sem runnið hefur á fólk vegna silfurvasa af tiltekinni gerð. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/04/islendingar_a_tanum_vegna_silfurvasa/

 

þjónustan verði af sem bestum gæðum, sagði ráðherra í fréttum Stöðvar tvö (04.03.2015). Gæði eru ekki misjafnlega góð. Þjónusta getur verið misjöfn að gæðum. Ráðherrann hefði ósköp vel getað sagt, – að þjónustan yrði sem best. Dæmigerð uppskrúfun málsins og ekki til fyrirmyndar.

 

Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.03.2015): Nefndin hefur skilað ráðherra tveimur frumvarpsdrögum. Nefndin hefur skilað ráðherra tvennum frumvarps drögum, hefði þetta átt að vera. Drög er fleirtöluorð. Þessvegna tvenn drög. Ekki tvö drög.

 

Á Morgunvakt Ríkisútvarpsins er nú (03.03.2015) er nú farið að tala um málfarsmola, þegar málfarsráðunautur kemur að hljóðnemanum til skrafs og ráðagerða undir lok þáttarins. á þriðjudagsmorgnum. Þetta er þarft og áhugavert spjall. Ríkisútvarpið er að sækja í sig veðrið í þessum efnum. Því ber að fagna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ja, hérna! Ekki gott.

  2. Jón skrifar:

    Nú er Kjarninn byrjaður að nota enskt eignarfall!

    „Ríkisstjórn Reinfeldt’s endurnýjaði samninginn árið 2010 en það var ekki fyrr en árið“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>