«

»

Molar um málfar og miðla 1690

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins,sem flutt er á báðum rásum (06.03.2015) sagði umsjónarmaður, að í þættinum yrði okkur flutt slúður frá Alþingi. Íslensk orðabók hefur þetta að segja um orðið slúður: Þvaður, söguburður, þvættingur, kjaftasaga. Ekkert slíkt var flutt. Ekki sæmandi orðalag. Umsjónarmenn þátta í Ríkisútvarpinu þurfa að þekkja merkingu algengustu orða. Í þættinum var hlustendum sagt frá störfum þingsins. Okkur var sagt að þingstörfin væru að ganga hægt, – gengju hægt og að stóru málin væru ekki að koma. Í Hraðfréttum svonefndum í Ríkissjónvarpi sagði yfirhraðfréttamaður stofnunarinnar: Hvernig eru þessar fréttir að fara í starfsmenn álversins? Molaskrifari veit að hann er ekki einn um að mislíka þetta er að orðalag ,sem sækir mjög á í málinu. Þetta mætti taka til umræðu í málfarsmolum þáttarins á morgun, þriðjudag.

Þá var í þættinum talað um brothætt byggðarlög. Líklega var átt við byggðarlög þar sem byggðin stendur höllum fæti, á í vök að verjast.

 

G.G. vísaði á þessa frétt (06.03.2015)

http://www.visir.is/article/20150306/FRETTIR01/150309385

Hann segir:
,,Ekki virðast fjölmiðlar komnir fyrir vind!
Á RUV notar veðurfræðingur nokkur forsetninguna „fyrir“ alveg fyrirvaralaust. Þá birtir ekki yfir öllum! Fyrir vestan merkir hjá viðkomandi allt Vesturland og miðin, eða því er virðist. Visir.is er farinn að éta þetta upp. Reykvíkingar eru ekki „fyrir vestan“ skv. íslenskri málvenju. En þeir eru raunar „fyrir sunnan“ samkvæmt málvenju. Fyrir vestan merkir, í skilningi nær allra landsmanna eldri en tvævetur, á Vestfjörðum. Ekki orð um það meir. Eða hvað?” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Af mbl.is (05.03.2015): Heims­markaðsverð á olíu hef­ur næst­um því helm­ing­ast frá því sein­asta sum­ar. Fréttaskrifarar hafa að mestu hætt að nota orðalagið í fyrra sumar. Seinasta sumar ber keim af ensku. Er að verða allsráðandi hjá fréttaskrifurum. Hefur svo sem verið nefnt áður.http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/05/oliuverdid_naer_helmingast/

 

Molalesandi benti á eftirfarandi af pressan.is (05.03.2015): Þessi ungi maður „lifði á götunni“ skv. greininni (um það bil í miðri grein) http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/bragi-pall-hryllingur-alkohols-og-kannabisefna—fardu-i-medferd – Ekki vel orðað. Þakka ábendinguna.

 

Lifandis ósköp geta langar íþróttafréttir sem skotið er inn milli frétta og veðurs í Ríkissjónvarpinu verið þunnar og innihaldsrýrar eins og var til dæmis á miðvikudagskvöld (04.03.2015).

 

Molaskrifari ítrekar tillögu sína um að Egill Helgason og hans fríða föruneyti fari til Færeyja og geri mannlífi og menningu hjá þessum góðu grönnum okkar verðug skil í nokkrum sjónvarpsþáttum. Það þarf að bæta fyrir unnin spjöll.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>