«

»

Molar um málfar og miðla 1708

Þáttur Ríkissjónvarpsins um Eddu Heiðrúnu Backman, sem sýndur að kvöldi föstudagsins langa (03.04.2015) er með magnaðasta sjónvarpsefni, sem Molaskrifara lengi hefur séð. Hvílík kona! Hvílík hetja ! Hvílíkt hugrekki og greind! Þessi þáttur var ekki aðeins menntandi. Hann var mannbætandi. Hafið heila þökk. Edda Heiðrún, Egill, Þórhallur og þið öll,sem þarna komuð við sögu.

 

Rafn benti á þessa frétt af mbl. is 01.04.2015) : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/01/osattur_vid_ad_enginn_svaradi/

Fyrirsögn fréttarinnar er: Ósáttur við að enginn svaraði. Í fréttinni segir: ,,Maður var hand­tek­inn í Hafnar­f­irði í gær­kvöldi eft­ir að hafa brotið þrjár rúður við lögreglustöð bæjarins. Í til­kynn­ingu lög­reglu kem­ur fram að maður­inn hafi verið ósátt­ur við að eng­inn svaraði er hann barði á dyrn­ar.” Rafn spyr: ,,Hvar voru þessar brotnu rúður? Lágu þær lausar á bílastæðinu við lögreglustöðina? Voru þær í nálægum húsum? Eða við þau? Kom gesturinn ef til vill með þær?” Von er að spurt sé.

 

Af mbl.is (31.03.2015): ,,Tvö flutn­inga­skip misstu í des­em­ber á síðasta ári sinn hvorn gám­inn af gaskút­um í sjó­inn á milli Íslands og Nor­egs í slæmu veðri og hafa kút­arn­ir verið að reka á land þar að und­an­förnu í Norður-Nor­egi.” Og það er samræmi í vitleysunni, því seinna í fréttinni segir: ,, Bú­ist er við að gaskút­arn­ir haldi áfram að reka á land á næstu mánuðum í vax­andi mæli. Ekki fylgir sögunni hvað það var og er sem kútarnir eru að reka á land. Þetta er næsta algeng villa. –Segja mætti: Færeyingar ráku grindhvalina, grindina, á land í Sandagerði, skammt frá sjúkrahúsinu. Hræ af grindhval rak á land í Nólsey. Kútana rak á land. Þeir ráku ekki á land. Misstu skipin ekki sitt hvorn gáminn? Molaskrifari hallast að því. Er þó ekki viss. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/31/hundrud_gaskuta_foru_i_sjoinn/

 

Við tækluðum málið, sagði borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kastljósi (30.03.2015). Ekki vanda allir stjórnmálmenn mál sitt.

 

Sló annan karlmann á Ísafirði er dálítið skrítin fyrirsögn á mbl.is (31.03.2015). Sló mann með flösku, hefði verið skárri fyrirsögn.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/31/slo_annan_karlmann_a_isafirdi/

 

Hversvegna þarf Toyota umboðið að sletta ensku í auglýsingum? Í auglýsingu fyrir bílgerðina Yaris Trend er talað um ,,trendset”. Enskusletta ( röng að vísu), sem ber ekki vott um góða dómgreind þeirra, sem semja auglýsingar fyrir fyrirtækið.

 

Hvað á fréttþulur Ríkísútvarps við þegar (05.04.2015) talað er um íþróttafréttirnar,sem ,,feitan pakka”? Molaskrifara finnst þetta orðalag ekki til fyrirmyndar. Svo bauð íþróttafréttamaður okkur velkomin í íþróttafréttirnar þennan páskasunnudag! Molaskrifari viðurkennir að orðið páskasunnudagur hefur hann aldrei heyrt áður. Orðabókin mín kannast ekki við það heldur. Hvað segja Molalesendur?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>