Þórarinn skrifaði (03.04.2015): ,, … segist heldur betur hafa brugðið í brún þegar hún bað afgreiðslukonuna í greiðasölunni í flugstöðinni á Egilsstöðum um að lækka tónlistina í hátalarakerfinu.”
Hann spyr: – Hefði ekki verið betra að hafa þetta: segir, að sér hafi heldur betur brugðið í brún ? Molaskrifari þakkar ábendinguna og svarar: Jú, Þórarinn, þitt orðalag hefði verið betra. Hitt heyrist samt æ oftar. Kannski hafði fréttaskrifari þarna rangt eftir, sem Molaskrifara finnst ekki ósennilegt.
Áskell skrifaði (03.04.2015) Eftirfarandi var að finna í frétt hjá Ríkisútvarpinu: „Louis Jordan fannst ofan á hvolfdum bát sínum rúmum 300 kílómetrum undan strönd Norður-Karólínuríkis í Bandaríkjunum. Þýskt flutningaskip sá hann…“ Áskell segir: ,,Ég er ekki alveg sáttur við þennan texta. Venjulega er talað um að skipbrotsmenn komist á kjöl og það voru það skipverjar á þýsku flutningaskipi sem sáu Louis þar sem hann sat á kili bátsins”. Auðvitað sá skipið ekki manninn! Þakka ábendinguna, Áskell. Hér er frétt Ríkisútvarpsins: http://www.ruv.is/frett/truin-helt-honum-a-floti
Og hér er frétt mbl.is um sama atburð. http://m.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/03/fannst_a_lifi_eftir_66_daga_uti_a_sjo/ – Í frétt mbl.is segir m.a.: ,,Umfangsmikil leit stóð yfir að bátnum og fannst Louis loks, ofan á hvolfdum bát sínum, um 300 kílómetrum frá strönd Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Það voru áhafnarmeðlimir á þýsku flutningaskipi sem komu auga á Louis og komu honum til bjargar,..” Ofan á hvolfdum bát sínum. Samræmt orðalag eða étur hér hver eftir öðrum?
En frétt Stöðvar tvö um þennan sama atburð (03.04.2015) var með því skrautlegasta sem Molaskrifari hefur lengi heyrt. Edda Andrésdóttir, þulur, talaði réttilega um skipverja á þýsku olíuskipi,sem komið hefðu auga á manninn. Fréttamaður talaði hinsvegar um áhafnarmeðlimi á þýsku flutningiskipi,sem komið hefðu auga á manninn. Lífseigt er orðskrípið áhafnarmeðlimur. Síðan sagði fréttamaður okkur að maðurinn hefði vaknaði við að bátinn hvolfdi og hann hafi haldið til uppi á öfugum bátnum síðan. Erfitt er að koma jafnmörgum ambögum fyrir í jafnstuttri setningu. Hér er fréttin af Stöð tvö: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV4B611943-6E00-4414-A5F3-B09F56FB1AA2
Morgunblaðið sagði frá sama atburði (04.04.2015) ,,,… fannst Louis loks uppi á kilinum á hvolfdum bát sínum , ….. en áhafnarmeðlimir þýsks flutningaskips fundu hann.” Enn koma áhafnarmeðlimir við sögu. Maðurinn hafði komist á kjöl eftir að bátnum hafði hvolft. Ef hann hafði komist á kjöl, hlaut bátnum að hafa hvolft.
Ríkissjónvarpið komst ágætlega frá því að segja okkur þessa frétt (03.04.2015) : http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/frettir/20150403
Fartölvuþjófur inn um svalirnar, er undarleg fyrirsögn á mbl.is (02.04.2015) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/02/fartolvuthjofur_inn_um_svalirnar/
Eins gott að hann fór ekki í gegnum hurðina, eins og æ oftar má sjá og heyra í fréttum. Í fréttinni er ágætlega sagt að þjófurinn hafi farið inn í íbúðina af svölunum.
Í gærkvöldi (07.04.2015) horfði Molaskrifari á endursýningu fjögurra ára gamallar bandarískrar heimildamyndar í danska sjónvarpinu DR2. Sá lungann úr myndinni, sem er næstum hálfrar annarrar klukkustundar löng og heitir,, Nauðgað í hernum”. Hún er um nauðganir og kynferðislegt ofbeldi, sem viðgengst í herjum Bandaríkjamanna. Það var vægast ógnvekjandi að horfa á þetta; hjá ríki, sem telur sig í fararbroddi í baráttu fyrir frelsi og mannréttindum. Lang oftast sluppu nauðgararnir og oftar en ekki voru þeir hækkaðir í tign í hernum og konurnar niðurlægðar, eftir óbætanlegt tjón á líkama og sálu sinni. Eiginlega skelfilegra en orð fá lýst.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar