Af visir.is (21.05.2015): “Tinna segist hafa séð Ásmund neyta rauðvíns í Keflavík fyrir loftak við reykingarsvæði flughafnarinnar. “ Fyrir loftak? Hefði ekki verið eðlilegra að segja, til dæmis, – áður en gengið var um borð? http://www.visir.is/asmundur-a-thingi-i-dag—eg-gat-ekki-sed-ad-hann-vaeri-farveikur-/article/2015150529869
Ekki heyrði Molaskrifari betur en að í fréttum Stöðvar tvö um bresku kosningarnar (07.05.2015) hafi fréttamaður sagt þegar kjörstöðum lokaði. Út í hött að taka þannig til orða.. Í Ríkisútvarpi í tíu fréttum sama dag, sagði Vera Illugadóttir hinsvegar réttilega: … þegar kjörstöðum var lokað.
Undarlegt, en svo sem ekki óvænt, að heyra í fréttum Stöðvar tvö (15.05.2015) sagt að nýtt hvalaskoðunarskip hefði verið vígt. Verið var að gefa gömlu skipi nýtt nafn. Sú athöfn átti ekkert skylt við vígslu.
Í miðdegisfréttum Ríkisútvarps , klukkan 15 00 (19.05.2015) var sagt: ,, … segir seinaganginn herma algjörlega upp á stjórnarandstöðuna”. Rugl. Enginn hefur lesið skrif þessa viðvanings yfir áður en hann las þau fyrir okkur. Segir seinaganginn algjörlega stjórnarandstöðunni að kenna, hefði hann betur sagt.
Af pressan.is (25.05.2015): Í Evrópu minnast menn þess nú að 70 ár eru liðin frá niðurlagi seinni heimsstyrjaldarinnar í álfunni. Fréttabarn eftirlitslaust á vaktinni um hvítasunnuna. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar, hefði þetta á að vera. Fleira er raunar athugavert í þessari frétt.
Meira af pressan.is sama dag. Stuttmyndin Gift er ekki nema tæpar fimm mínútur að lengd en hún skilur engan eftir ósnortinn. Lætur engan ósnortinn, hefði verið betra og í samræmi við málvenju. Kannski var hér hugsað á ensku, – … leaves no one untouched.
Á visir.is sá Molaskrifari grein (25.05.2015) með fyrirsögninni: Gagnsæi – stölkun – ofbeldi. Molaskrifari hnaut um þetta. Hann þekkir ekki orðið stölkun í íslensku. Það er ekki að finna í þeim orðabókum sem honum eru tiltækar. Hann þekkir hinsvegar ensku sögnina to stalk, sem meðal annars hefur þá merkingu á leggja í einelti. Enska nafnorðið stalk þýðir stilkur. Stölkun er allsendis óþörf enskusletta og á ekkert erindi til okkar.
http://www.visir.is/gagnsaei—stolkun—ofbeldi/article/2015150529662
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (26.06.2015) var talað um að selja í mansal. Selja sem þræl, selja í þrælahald. Fast er í málinu að tala um að selja einhvern mansali, ekki selja í mansal. Það er röng málnotkun. Enginn les yfir. Eða enginn veit betur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar