«

»

Minningarorð:HALLDÓR ÁSGRÍMSSON f. 8.9.1947,d.18.5.201

Birt í Morgunblaðinu 28.5.2015

 Leiðir okkar Halldórs Ásgrímssonar lágu saman í stjórnmálum og störfum fyrir lýðveldið í aldarfjórðung. Við vorum ýmist samherjar í stuðningi við ríkisstjórn eða mótherjar. Aldrei andstæðingar.Það var alltaf hlýtt á milli okkar. Þráður vinarþels, leyfi ég mér að segja. Póltíkin var þá dálítið önnur en nú  – séð frá hliðarlínunni. Þá var bróðir minn Sverrir Brimar á Höfn í Hornafirði trúnaðarmaður Halldórs á heimaslóð. Við bræður vorum ekki alveg sammála í pólitík, en við vorum aldrei ósammála um Halldór Ásgrímsson.

Minnisstætt er þegar Halldór náði ekki kjöri 1978. Þá fór hann til sjós. Hvað skyldu margir þingmenn hafa gert það? Annað kemur einnig í hugann. Var hann ekki sá fyrsti sem gegndi lektorstöðu við Háskóla Íslands án þess að hafa hið hefðbundna stúdentspróf? Hann var virtur og vel látinn kennari. Vel menntaður í sínum fræðum.

Forysta og trúnaðarstörf í samfélaginu felast ekki síst í að taka ákvarðanir,- oft erfiðar. Svo lengi sem Halldór Ásgrímsson gegndi leiðtogahlutverki í flokki og í þágu þjóðar urðu ákvarðanirnar margar. Sumar umdeildar,- að sjálfsögðu. Við Alþýðuflokksmenn vorum oft ,- ekki alltaf, samstiga Halldóri og hans mönnum. Ekki skal þar skorast undan ábyrgð. Eftir á er oft auðvelt að segja að vinna hefði átt á annan veg.

Flokkar okkar voru  greinar á sama meiði. Fyrir löngu sátum við Halldór saman á leið af flugvelli á norrænan fund. Í spjalli okkar sagði Halldór: – Það er leitt Eiður, að flokkar okkar skuli ekki geta átt nánara samstarf. – Það var rétt. Samstarf flokkanna var oft gott. Kannski ekki nógu oft.

Halldór var skoðanafastur og fljótur að átta sig á flóknum málum. Yfirvegun og raunsæi voru aðalsmerki hans sem stjórnmálamanns.  Margt kemur upp í hugann úr samstarfinu í utanríkisráðuneytinu. – Ágreiningur var meðal fulltrúa Íslendinga á fundi vestanhafs þegar mælst var til að halda vinnufund um loftslagsmál á Íslandi. Það þurfti að taka af skarið, – fljótt. Ég hringdi til Halldórs. Hann svaraði.- Það hefur aldrei verið hættulegt að halda fundi! – Fundurinn var haldinn í Reykjavík með ágætum árangri. Í annað skipti var ágreiningur milli ráðuneyta á Íslandi um mál sem varðaði laxveiðar í sjó. Fyrir dyrum var samningafundur á Írlandi. Ég vildi vita hvort afstaða utanríkisráðuneytis væri ekki óbreytt og ræddi við  minn ráðherra. Hann sagði: – Þeir sem halda að ég hafi skyndilega skipt um skoðun í þessu máli, – þeir bara þekkja mig ekki!

Halldór var fastur fyrir. Hann var orðheldinn, traustur. Það var gott að vinna undir hans stjórn. Sumum þótti hann alvörugefinn, en manna glaðastur var hann í góðum hópi, sjór af skemmtisögum, ef því var að skipta.

Það eru ekki nema fáeinar vikur síðan við röbbuðum saman í tónleikahléi í Hörpu. Hann lék á als oddi. Glaður og reifur. Enginn má sköpum renna.

Halldór Ásgrímsson var vænn maður. Mér reyndist hann drengur góður. Margir munu sakna hans. Það gerum við gömlu Alþýðuflokksmennirnir, sem unnum með honum.

Sigurjónu og fjölskyldunni allri er vottuð einlæg samúð.

 

Eiður Svanberg Guðnason

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>