Gamall starfsbróðir benti Molaskrifara á eftirfarandi á vef Ríkisútvarpsins: ,, ,, 4000 sjómenn féllu við Íslandsstrendur“, segir á vefsíðu Ríkisútvarpsins. Þar er átt við franska sjómenn. Ætli ekki sé átt við að þeir hafi drukknað? Ef svo er, þá er þetta með eindæmum klaufalegt orðalag, greinilega ritað án þess að hugsa.” –Vanhugsað. Molaskrifari þakkar ábendinguna. http://frettirnar.is/um-4000-sjomenn-fellu-vid-islandsstrendur/
Þetta var seinna lagfært: ,,Um 4000 sjómenn létust við Íslandsstrendur,, Skárra.
Af mbl.is (02.06.2015): ,,Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvað sér hljóðs á þingi í dag og setti fram þá hugmynd ...” Ragnheiður kvaddi sér hljóðs. Fréttaskrifarinn kann ekki að greina milli sagnorðanna að kveða og að kveðja. Kveða – kvað. Kveðja – kvaddi.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (02.06.2015) sagði fréttamaður: Hér fyrir aftan mig má sjá riffilmann sérsveitarinnar ... Í seinni fréttum sama kvöld talaði fréttamaður um riffilmenn lögreglunnar..
Rifilmaður? Er það ekki skytta? Molaskrifari ekki áður heyrt orðið riffilmaður.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (01.06.2015) sagði fréttamaður: ,, …. segir , að heilbrigðiskerfið þoli ekki lengur við.” Ekki er þetta vel að orði komist. Betra hefði verið, til dæmis, – segir heilbrigðiskerfið ekki þola meira, segir heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum. Sami fréttamaður talaði um millilandsflugvöll. Átti líklega við millilandaflugvöll.
Á Bylgjunni var sagt (03.06.2015) að hinn umdeildi forseti FIFA hefði stigið til hliðar, – hann sagði af sér. Þetta orðalag er algengt í fjölmiðlum um þessar mundir. Menn eru hættir að hætta, hættir að láta af störfum, hættir að segja af sér. Einnig var sagt að hann væri undir rannsókn. Verið er að rannsaka mál hans. Hvort tveggja eru hráar hroðvirkniþýðingar úr ensku., – step aside og be under investigatiion. Enskan skín í gegn.
Einstaklega illa skrifuð frétt á presssan.is (03.06.2015): http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/15-ara-hengdi-sig-i-kjolfar-eineltismyndbands
Dæmi: Vakaðu yfir fjölskyldunni þinni á meðan þau syrgja. Vandalaust að nefna fleiri.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar