«

»

Molar um málfar og miðla 1731

 

Molavin skrifaði (05.06.2015): ,, Það heitir víst að bera í bakkafullan lækinn að nefna þetta enn einu sinni, en þeim á Vísi lærist seint að fara rétt með. Í dag, 5.6.2015 stendur þetta í frétt um jökulgöng fyrir ferðafólk: „Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem vígði göngin við hátíðlega athöfn og leist henni vel á.“ Barnaskapur og fagleysa einkanna því miður skrif of margra, sem hafa af því launað starf að skrifa í fjölmiðla og netmiðla. Metnaðarleysi eigenda og yfirmanna, sem fylgjast hvorki með né leiðbeina er sömu miðlum ekki til vegsauka.” Hverju orði sannara. Þakka bréfið.

Um þessi sömu göng var sagt í fréttum Stöðvar tvö (05.06.2015): ,, .. göngin voru opnuð um klukkan milli fjögur og fimm í dag “.

Ítrekað var í fréttum Stöðvar tvö á Laugardagskvöld (06.06.2015) að göngin í jöklinum hefðu verið vígð.

 

Gamall vinnufélagi sendi eftirfarandi (05.06.2015):

,,Hið ágæta heiti „lýsi“ virðist nú eiga í vök að verjast fyrir „fiskolíu“ sem er greinilega bein þýðing úr ensku. Ef til vill þykir ekki orðið nógu fínt í nýmóðins „lífstíl“ að taka lýsi og því þurfi að finna því einhvern „fínni“ búning sem á betur við í heimi sjálfhverfu kynslóðarinnar.”Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hefur einnig tekið eftir þessu. Lýsi er ljómandi fallegt orð.

 

Íslenskt skemmtiferðaskip fer jómfrúarferð, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (03.06.2015). Skipið heitir Ocean Diamond og er nokkurra áratuga gamalt, uppgert. Það á heimahöfn á Bahamaeyjum. Áhöfnin er erlend. Íslendingar mega ekki kaupa sér far eða sigla með skipinu í ferðum þess umhverfis landið. Hvað er svona íslenskt við þetta?

http://www.ruv.is/frett/islenskt-skemmtiferdaskip-fer-jomfruarferd

 

Í fylgiblaði Morgunblaðsins (05.06.2015) er hálfsíðu auglýsing frá Málningarverslun Íslands. Þar segir: Þegar hefðbundin málning er ekki að duga … Þarna hefur verið að verki slakur textahöfundur hjá auglýsingastofu eða fyrirtækinu. Hér hefði verið ólíkt betra að segja: Þegar hefðbundin málning dugar ekki. Þess er-að sýki er smitandi.

 

Þeir á mbl.is komast stundum hnyttilega að orði, viljandi eða óviljandi. Dæmi frá laugardegi (06.06.2015): ,,Pall­bíll sást á hvolfi í Ártúns­brekku um há­deg­is­bil”. Það var og.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/06/pallbill_a_hvolfi_i_artunsbrekku/

 

Enn einu sinni var sjónvarpsfréttunum fleygt út af sínum stað vegna fremur ómerkilegs boltaleiks á sunnudagskvöldið (07.06.2015). Fámennt var á áhorfendabekkjum. Svo var þetta sent út á tveimur rásum. Minna mátti ekki gagn gera. Er enginn á fréttastofunni með bein í nefinu?

 

Molaskrifara finnst Tryggvi Aðalbjörnsson , fréttamaður Ríkisútvarps, komast vel frá því að greina okkur frá réttarhöldum og yfirheyrslum yfir fjármálafólkinu sem nú sætir ákærum vegna hrunsins. Það er ekki einfalt mál að koma kjarna máls úr löngum réttarhöldum til skila í stuttu máli svo vel skiljist. Tryggva hefur tekist það með ágætum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>