«

»

Molar um málfar og miðla 1732

 

Í fylgiblaði Morgunblaðsins (05.06.2015) er hálfsíðu auglýsing  frá Málningarverslun Íslands. Þar segir: Þegar hefðbundin málning er ekki að duga … Þarna hefur verið að verki slakur textahöfundur hjá auglýsingastofu eða fyrirtækinu. Hér hefði verið ólíkt betra að segja: Þegar hefðbundin málning dugar ekki.  Þess  er-að sýki er smitandi.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps, klukkan átta, (06.06.2015) var okkur sagt að tuttugu ár væru síðan Juventus sigraði meistaradeildina. Ótrúlegt en satt. Sigraði deildina! Þeir sem svona taka til orða og fást við að skrifa fréttir eru ekki á réttri hillu.

 

Í útvarpsþætti á Bylgjunni (05.06.2015) sagði umsjónarmaður okkur frá bílstjóra á traktor sem hefði farið út af vegi með tuttugu tonn af málningu. Hér er aulaþýðing á ferð. Orðið traktor er á íslensku eingöngu notað um dráttarvélar, landbúnaðartæki. Hér var greinilega verið að þýða úr ensku en í Bandaríkjunum er orðið tractor (trailer) notað um dráttarbíla með sleðatengi, bíla sem draga festivagn.  Encarta orðabók Molaskrifara segir: ,, Front part of a heavy truck , a large vehicle, the front section of a truck used to haul heavy loads,with a driving cab, engine and coupling for trailers”.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (06.06.2015) var sagt: ,, … þegar Eastern Star ferjan hvolfdi í Yangsteánni á mánudaginn.” Ferjan hvolfdi ekki. Ferjunni hvolfdi á Yangstefljótinu í Kína. Í sama fréttatíma var sagt: ,, Þetta er í þriðja sinn sem maðurinn er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart konunni….” Hér hefði betur verið sagt: ,, Þetta er í þriðja sinn,sem manninum er gert að sæta …..”

 

Af mbl.is (05.06.2015): ,,Parið, sem kem­ur frá Wales, var hand­tekið fyr­ir að stunda kyn­líf á al­manna­færi.” Hér hefði átt að standa:Parið sem er frá  Wales …  http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/06/05/stundudu_kynlif_a_tonleikum_palomu_faith/

Æ algengara  er orðið að heyra eða lesa um manninn sem kemur frá Akureyri eða kemur frá Seyðisfirði. Maðurinn er ekkert að koma þaðan, heldur á heima þar, eða á rætur þangað að rekja.

 

Á visir.is sagði á föstudag (05.06.2015): Verslun opnar aftur í Hrísey á morgun. Ekki var sagt hvað verslunin ætlaði að opna. http://www.visir.is/verslun-opnar-aftur-i-hrisey-a-morgun/article/2015150609284

Verslun verður sem sé starfsrækt í Hrísey að nýju eftir nokkurt hlé.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>