«

»

Molar um málfar og miðla 1742

Biðjast afsökunar á tréspýtum, segir í fyrirsögn á mbl.is (23.06.2015): http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/06/23/bidjast_afsokunar_a_trespytum/

Fréttin hefst á þessum orðum: ,, Kjörís hef­ur beðist af­sök­un­ar á því að íspinn­ar hafa á und­an­förn­um vik­um verið fram­leidd­ir með tré­spýt­um en ekki plast­spýt­um líkt og aug­lýst er fram­an á ís­köss­um.” Molaskrifari hefur hvorki heyrt áður talað um tréspýtur eða plastspýtur. Spýta er ítil fjöl, eða fjalarbútur, segir orðabókin.

 

Ekkert fyrirtæki kemst með tærnar þar sem Húsasmiðjan – Blómaval hefur hælana í innleiðingu ensku slettunnar Tax Free. Maður hnýtur um þessa allsendis óþörfu slettu í næstum hverri auglýsingu frá fyrirtækinu. Hversvegna má ekki nota orðið afsláttur eða tala um verðlækkun? Tax Free – þýðir skattfrjálst eða undanþegið skatti. Þarna er ekki verið að auglýsa skattfrelsi eða tollfrelsi, heldur afslátt eða tímabundna verðlækkun. Það á að segja neytendum satt. Fleiri fyrirtæki eru reyndar undir þessa sömu sök seld.

Stundum er þess getið í klausu með örsmáu letri, næstum falinni, neðst í auglýsingunni að þrátt fyrir fullyrðinguna um skattleysi fái ríkissjóður sitt.

 

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps ( 24.06.2015) var sagt frá dorgveiðikeppni í Hafnarfjarðarhöfn. Sagt var um þátttakendur þeir kepptust um að veiða sem mest. Molaskrifari hallast að því að þetta hefði átt að orða á annan veg. Við keppumst við eitthvað, – til dæmis að ljúka verki. Þarna kepptu þeir, sem voru að dorga, í því að veiða sem mest.

 

Margar fréttir hafa verið fluttar af sparisjóðum að undanförnu. Ekki síst um sparisjóðinn Afl. Sveitarstjóri Fjallabyggðar hefur komið sjónvarp og sagt að fé sjóðsins ætti að nota í þágu samfélagsins á svæðinu. Í öðrum fréttum m.a. hjá aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins hefur komið fram að sparisjóðurinn hafi ekki átt neina peninga,- fjárhagur hans hafi verið neikvæður. Sem þýðir væntanlega að sparisjóðurinn hafi átt minna en ekki neitt. Molaskrifari viðurkennir, að hann hefur ekki alveg fulla heyrn, ekki frekar en svo margir á hans aldri , en hann skildi ekki nema hluta þess sem bæjarstjórinn sagði í sjónvarpsviðtalinu. Stundum þarf að texta viðtöl, – jafnvel þótt þau fari fram á íslensku.

 

Fréttamat fréttastofu Ríkisútvarpsins kemur stundum á óvart. Fyrsta ,,frétt” í seinni fréttum á miðvikudagskvöld (24.06.2015) var um leiðsöguhunda fyrir blinda. Þetta var ekki frétt, heldur pistill, sem allt í lagi hefði verið að hafa svona aftan við miðju eða seint í fréttunum. Þetta var sem sagt ekki frétt. Heldur feature, eins og sagt hefði verið á vondu máli í blaðamennskunni í gamla daga.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>