«

»

Molar um málfar og miðla 1765

 

FRJÁLSÍÞRÓTTAMANNESKJUR

Eftirfarandi barst Molum Úr Vesturbænum vegna íþróttafréttar í (02.08.2015):

,,íþróttamanneskja er ekki fallegt, sjá nokkur dæmi úr frétt 2. ágúst, en íþróttamaður gamalt og gilt orð.

 

„Þetta má ráða af niðurstöðum rannsókna á blóðsýnum úr 5.000 frjálsíþróttamennskjum, sem lekið var til fjölmiðla á dögunum… Gögnin geyma niðurstöður rannsókna á 12.000 blóðsýnum úr 5.000 frjálsíþróttamanneskjum, sem tekin voru á stórmótum á árunum 2001-2012… Meðal þess sem Parisotto og Ashenden telja sig geta ráðið af gögnunum er að 146 verðlaun sem unnið var til í langhlaupum og göngugreinum á ólympíuleikum og heimsmeistaramótum á þessu tímabili hafi ratað um hálsinn á fólki, hvers blóðsýni hafi gefið verulega vafasamar niðurstöður. (hvers er smekklaust orðalag eins og á 18 öld, hefði mátt segja í staðinn: fólki með með verulega vafasama niðurstöðu í blóðsýnum)… Af niðurstöðum blóðrannsóknanna má ráða að 8 af hverjum 10 rússneskum frjálsíþróttamanneskjum sem komust á verðlaunapall á stórmótum hafi innbyrt eitthvað sem ekki samræmdist reglum.” – Molaskrifari þakkar góða sendingu.

 

HVAR ER METNAÐUR MBL.IS ?

Af mbl.is (04.08.2015). ,,Hún seg­ir faðir sinn hafa staðið und­ir svipuðum ásök­un­um á sín­um tíma en þau gefi ekk­ert fyr­ir vest­ræn­an áróður.” Ekki batnar það hjá Mogga. Hvar er metnaðurinn?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/04/kim_jong_un_hlytur_fridarverdlaun/

 

VONLAUS AÐSTÆÐA

K.Þ. benti á þessa frétt á mbl.is (03.08.2015): http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/08/02/raka_sig_undir_hondunum_thratt_fyrir_allt/. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Í fréttinni segir meðal annars: ,,10 kon­ur sem raka sig und­ir hönd­un­um þrátt fyr­ir að vera í von­lausri aðstæðu”. Í vonlausri aðstæðu! Það var og.

 

ÓÞÖRF ÞOLMYND

Í fréttum Stöðvar tvö (03.08.2015) var sagt: Þessar myndir voru teknar af einum íbúa borgarinnar … Oft hefur verið vikið hér að óþarfri notkun þolmyndar. Í þessu tilviki hefði verið betra að segja: Þessar myndir tók íbúi í borginni. Borgarbúi tók þessar myndir.Germynd er alltaf betri.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>