«

»

Molar um málfar og miðla 1787

 

ÍSLANDSVINIR

Molavin skrifaði (03.09.2015): „Íslands­vin­kon­an Kel­is á von á barni.“ Þessa stórfrétt má lesa á mbl.is (3.9.15). Ekki hafði Molavin haft spurnir af þessari söngkonu fyrr, en samkvæmt mynd sem fylgir, hefur hún komið til Íslands. Það er  búið að verðfella rækilega hugtakið „Íslandsvinur“ sem gjarnan var notað um erlenda borgara, sem börðust fyrir málstað Íslands heima fyrir, stundum í óþökk landa sinna, eins og ýmsir danskir vinir okkar í handritamálinu. Íslandsvinur var heiðursnafnbót. Nú virðist það gilda um alla, sem til landsins koma. Milljón á hverju ári.- Satt og  rétt. Þakka bréfið, Molavin.

 

ÞJÓÐIN VEIT

Örugglega veit öll þjóðin, að samkvæmt skoðanakönnunum eru Píratar nú stærsta stjórnmálaaflið á Íslandi. Það er nefnilega búið að endurtaka þetta og tyggja í okkur í næstum hverjum einasta fréttatíma undanfarna daga. Þetta er að minnsta kosti komið inn í hausinn á þeim sem þetta skrifar.

 

GÓÐ BYRJUN

Kastljós Ríkissjónvarpsins fer vel af stað undir ritstjórn þeirra Þóru Arnórsdóttur og Brynju Þorgeirsdóttur. Óhugnanlegar frásagnir af ofsóknum og ofbeldi fyrrum sambýlismanna eða maka gegn konum.  Meiriháttar klúður lögreglunnar við meðferð mála. Vönduð umfjöllun. Fremur var fátt um svör hjá æðstu yfirmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þættinum á  miðvikudagskvöldið (02.09.2015). Molaskrifari játar reyndar að hann skildi ekki öll svörin til hlítar.

Áhugaverð umfjöllun um fjármál Hörpu. Mikið gert úr taprekstri. Fasteignagjöld til Reykjavíkurborgar hafa í raun orðið helmingi hærri en reiknað var með. Hátt í 400 milljónir. Reykjavíkurborg slær ekki vindhöggin í þessum efnum. Minna er talað um það, sem kom fram í máli Halldórs Guðmundssonar framkvæmdastjóra Hörpu, að samkvæmt athugun óháðs fyrirtækis hefur ráðstefnuhald í Hörpu skilað okkur fimm milljörðum í gjaldeyri. Harpan er fallegasta og merkilegasta rósin í hnappagati höfuðborgarinnar. Þessvegna  eiga borgaryfirvöld að hlú að henni, ekki skattkreista hana næstum til blóðs.

 

EINUM OF

Samkvæmt auglýstri dagskrá Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (03.09.2015) voru tvær og hálf klukkustund lagðar undir fótbolta. Frá klukkan tæplega hálf sjö til klukkan rúmlega níu. Hvor hálfleikur er 45 mínútur og líklega 15 mínútna hlé á milli. Svo kom Kastljós í hálftíma og síðan meiri íþróttir í annan hálftíma, tæpan þó. Þetta er ekki góð dagskrárgerð   Sjálfsagt að sýna leikinn, og sigurinn vissulega gleðiefni,  en fimbulfambið átti að vera á íþróttarásinni. Til þess er hún, eða hvað?

 

SNERT – SNORTIN

Á mbl.is (0309.2015) segir: „Góðvild ykk­ar og vilji til að hjálpa hef­ur snert mig djúpt,“ skrif­ar Eygló Harðardótt­ir, fé­lags­málaráðherra, á Face­book-síðu sem ein­mitt ber nafn henn­ar, – sennilega á ráðherra við að hún sé djúpt snortin, ekki snert.

 

AÐ LEGGJAST Í GREININGU

Stjórn spítalans ákvað að leggjast í ítarlega greiningu á aðkomu læknanna .. sagði fréttamaður Stöðvar tvö (01.09.2015). Stjórn spítalans ákvað að láta fram ítarlega rannsókn á aðkomu læknanna … hlut læknanna …     Stjórnin lagðist ekki í greiningu. Það orðalag er út í hött. Sami fréttamaður sagði í sömu frétt:… áttu milligöngu um … Hefði átti að vera: .. höfðu milligöngu um …

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Björn S. Stefánsson skrifar:

    Það er ofnotað orðalag, að hinn og þessi „hvetji“ tiltekinn ráðamann. Oft mundi vera um það að ræða, að lagt sé að manninum eða honum bent á.
    Molalesandi

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>