«

»

Molar um málfar og miðla 1789

 

LÉLEG ÞÝÐING

G.G. skrifaði (06.09.2015): Hann segir: : Held að þú hefðir áhuga á að lesa þetta: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/06/thurfti_ad_drekka_brjostamjolk_ur_hundi/

,,Átakanleg saga, en þýðingin er það ekki síður! Fyrir það fyrsta geta hundar ekki mjólkað, en tíkur geta gert það. Í annan stað þá eru ekki brjóst á tíkum, heldur júgur með spenum. Úr þeim getur komið það sem heitir „tíkarmjólk“ á íslensku.” – Rétt G.G. Þarna hefur ekki verið vandað til verka. Þakka ábendinguna.

MÓTTÖKUR FLÓTTAFÓLKS OG FLEIRA

Molalesandi benti á þessa frétt af visir.is (05.09.2015) :http://www.visir.is/hrosa-austurriki-og-thyskalandi-fyrir-mottokur-flottafolks/article/2015150909266?fb_action_ids=917117598361839&fb_action_types=og.comments

Fyrirsögninn er ankannaleg, en bréfritari vakti sérstaka athygli á texta með mynd,sem fréttinni fylgir. Þar segir: ,, Þúsundir flóttamanna gengu af stað frá Búdapest til Ungverjalands, en á endanum var þeim keyrt í í rútum.” Um þetta er tvennt að segja: Búdapest er í Ungverjalandi,- Búdapest er höfuðborg Ungverjalands. Flóttamönnunum var ekki keyrt, ekið var með þá í rútum. Þakka bréfið.

 

UM KYNNINGU

Við erum mjög spennt að kynna leikhúsgesti fyrir komandi leikári, sagði leikhússstjóri Borgarleikhúss í ágætum menningarþætti Brynju Þorgeirsdóttur í beinni útsendingu úr Borgarleikhúsinu á föstudagskvöld (04.109.2014). Svolítið umsnúin hugsun. Væntanlega hefur hugsunin verið önnur: Að kynna leikárið fyrir leikhúsgestum. Svona brengl er reyndar alls ekki nýtt af nálinni.

 

FJÁRKÚGUN

Í fréttum Ríkisútvarps (06.09.2015) var talað um að fjárkúga fólk. Er ekki málvenja að tala um að kúga fé af fólki? Beita einhvern/einhverja fjárkúgun? Minnir það.

 

 

KÚREKI NÆTURINNAR

Kúreki næturinnar , Midnight Cowboy, (1969) með þeim Dustin Hoffman og Jon Voight er með bestu bíómyndum að mati Molaskrifara. Ríkissjónvarpið sýndi myndina á föstudagskvöld (04.09.2015). Svona góðar myndir mættu gjarnan vera á dagskrá fyrr á kvöldinu. Líka mætti kynna sýningarseinkun með skjáborða. Kannski var það gert. Skrifari lét nægja að hafa hljóðið á meðan hann beið eftir myndinni framundir miðnætti. Minnist þess ekki að hafa séð lélega mynd með Dustin Hoffman.

 

SVOLÍTILL ÚTÚRSNÚNINGUR

Þær eru merkilegar ljósavélarnar í Herjólfi. Bæjarstjórinn í Eyjum talaði um í fréttum síðastliðinn sunnudag (06.09.2015) að vegna rafmagnsleysis frá veitukerfi þyrfti fólk kannski að horfa á tiltekinn íþróttaleik í gegnum ljósavélar Herjólfs!

 

BOLTABRJÁLVÆÐING

Svo mjög hefur Ríkisútvarpinu tekist að boltabrjálvæða þjóðina að nú stjórnar íþróttastjóri Ríkisútvarpsins því hvenær Alþingi Íslendinga er sett!

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>