«

»

Molar um málfar og miðla 1800

 

VERSLA – KAUPA

Í Bónusversluninni í Árbænum rak Molaskrifari augun í auglýsingaskilti frá Blindravinnustofunni, sem á stóð: Verslaðu hágæðavörur. Betra hefði verið: Kauptu hágæðavörur.

 

VÍÐA LEYNIST OLLA

Í sunnudagskrossgátu Morgunblaðsins (20.09.2015) er lóðrétt orð, sem finna skal fyrir orsökuðum. Það reyndist vera ullum, sem væntanlega er dregið af sögninni að olla sem er ekki til, en skýtur æ oftar upp kollinum þegar fólk, ræður ekki við að beygja sögnina að valda.

 

KJÖRSSTAÐIR LOKA

Enn og aftur var okkur sagt í Ríkisútvarpinu, í hádegisfréttum á sunnudag (20.09.2015) að kjörstaðir lokuðu klukkan fjögur. Í þetta skiptið var það í Grikklandi sem kjörstöðum var lokað klukkan fjögur.

 

EINKAVIÐTAL VIÐ ……

Það var drepfyndið hjá Sigmari Guðmundssyni í morgunútvarpi Rásar tvö (22.09.2015) að taka einkaviðtal við blaðamanninn sem tók einkaviðtal við blaðamann DV sem tók einkaviðtal við poppgoðið Justin Bieber. Verðug kóróna á vitleysisganginn. Í upphaflega viðtalinu mun hafa komið fram að poppgoðið hafi þurft að pissa og farið á salerni. Mjög merkilegt. Kannski gerir hann líka eitthvað fleira eins og venjulegt fólk.

 

ÓBOÐLEGUR TEXTI

Af mbl.is (18.09.2015) ,,Lík fjög­urra ára sýr­lenskr­ar stúlku skolaði að vest­ur­strönd Tyrk­lands í dag, sam­kvæmt því sem fram kem­ur í fjöl­miðlum þar í landi. “ Þetta er óboðlegur texti. Um það þarf í rauninni ekki að hafa öllu fleiri orð. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/18/annad_barnslik_rak_a_land/

 

STÆKKUN HELLISHEIÐAR

Í frétt á mbl.is á sunnudaginn (20.09.2015) er tvívegis talað um slys, sem varð er verið var að vinna að stækkun Hellisheiðar. Molaskrifari hefur átt leið um heiðina alloft í sumar. Hann hefur ekki orðið var við neina stækkun á heiðinni. . Hinsvegar hefur verið unnið að því að breikka veginn yfir Hellisheiði (var enda ekki vanþörf á) og er því verki senn lokið.- Fleiri ráku augun í þetta: T.H. skrifaði (20.09.2015): ,,Í frétt þessari er í tvígang talað um „stækkun Hellisheiðar“!
Mikið ætla ég að vona að ekki sé verið að stækka heiðina og að það standi heldur ekki til. Það yrði dýr og mikil framkvæmd. Ég þykist vita að yfir standi vinna við BREIKKUN VEGARINS yfir heiðina, en það er annar handleggur og viðráðanlegri”. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/20/ok_a_mann_a_hellisheidi_2/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>