FÉKK Á SIG LEKA!
Ýmislegt undarlegt ber fyrir augu á vefmiðlum, sem miðla fréttum á netinu. Þannig er (21.09.2015) á visir.is sagt frá togara sem leki kom að, að hann hafi fengið á sig leka! Enginn les yfir. Enginn metnaður til að gera vel.
Í fréttinni segir: ,, Togarinn Ásbjörn RE, sem fékk á sig leka á Vestfjarðamiðum, siglir nú áleiðis til hafnar fyrir eigin vélarafli og er væntanlegur til Reykjavíkur um hádegi …”
Á vefnum var togarinn reyndar ranglega kallaður Arinbjörn.
HVAÐ ER AÐ, MBL.IS?
Af mbl.is (21.09.2105) : ,Tveimur árum eftir að einkaskiptum var lokið á dánarbúið stóreignamanns í Reykjavík kom í ljós að hann átti miklar eignir í Kaupþingi í Lúxemborg og síðar Banque Havilland sem erfingjum búsins vissu ekki af þegar skipin fóru fram. Um var að ræða rúmlega fjóra milljarða króna.” http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/21/vissu_ekki_um_milljardana/
Þarf ekki mbl.is að athuga sinn gang? Sýnist það og er sennilega ekki einn um þá skoðun.
RÉTT HEYRT?
Heyrði Molaskrifari það rétt í fréttayfirliti í morgunútvarpi Ríkisútvarps (22.09.2015) að sagt væri: Verulegur hluti þess kjúklingakjöts sem neyttur er af þjóðinni? Vonandi ekki. Vonandi var sagt: Verulegur hluti þess kjúklingakjöts , sem neytt er af þjóðinni,, – betra hefði verið , – verulegur hluti þess kjúklingakjöts,sem þjóðin neytir.
ÞÁGUFALLSSÝKI – ÞÁGUFALLSHNEIGÐ
Í Málskoti málfarsráðunautar í morgunútvarpi Rásar tvö (22.09.2015) var rætt um það sem hingað til hefur verið kallað þágufallssýki. Þar var sagt að frekar ætti að kalla þetta þágufallshneigð vegna þess hve fyrirbærið sé gamalt og útbreitt nú orðið. Molaskrifari skynjaði umræðuna á þann veg að eiginlega væri allt í lagi að segja mér langar. Kannski er það röng tilfinning. En eftir situr hugsunin um að verið væri að segja okkur , að ef nógu margir taki sér sömu ambögu í munn, þá verði hún rétt mál og vandað. Hann er því reyndar ekki sammála. Hvar endar það?
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
24/09/2015 at 10:47 (UTC 0)
Öldungis rétt, Haukur.
Haukur Kristinsson skrifar:
24/09/2015 at 10:43 (UTC 0)
Hvar endar þetta? Margir kalla þetta þróun tungumálsins, ekki ósvipað því að kalla uppblástur þróun gróðurs og jarðvegs.