«

»

Molar um málfar og miðla 1813

HUGSUNARLEYSI ?

Rafn skrifaði (13.10.2015): ,,Á vefsíðu Vísis má í tilefni af stjórnarskiptum í trúfélagi lesa:

Ekki hefur enn náðst í Salmann Tamimi til að inna hann eftir afstöðu Sverris og þá nýjum áherslum félagsins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.“
Þótt litið sé fram hjá misritun í báðum nöfnum Salmans Tamini, sem ekki náðist í, þá vekur það furðu, að leitað sé til sigurvegara kosninga til að afla upplýsinga um afstöðu þess, sem varð undir. Skyldi með sama hætti hafa verið reynt að ná til Sverris Agnarssonar til að afla upplýsinga um afstöðu Salmans Tamini?

Væri með sama hætti eðlilegt að spyrja Bjarna Benediktsson um afstöðu Steingríms J. Sigfússonar til landsmála? Eða öfugt, að spyrja Steingrím um afstöðu Bjarna?

Annað mál: Það veldur undrun minni, þegar rektor Háskóla Íslands segir sjálfur í sjónvarpsviðtali, að Hæstiréttur hafi fellt dóm um, að verkfallsréttur umsjónarmanna fasteigna nái ekki til þess að banna rektor að opna og loka dyrum háskólahúsnæðisins, en heldur síðan áfram og segir, að hann muni virða þennan verkfallsrétt og ekki opna dyr eða loka þeim meðan verkfall standi.” – Molaskrifari þakkar bréfið. Það er einhver undarleg hugsunarvill, eða hugsunarleysi í huga þess,sem skrifaði fréttina á vefsíðu Vísis. Rétt er það svo , að háskólarektor hefði mátt orða ummæli sín um verkfallsmálin á annan veg og skýrari.

 

ÞÁGUFALL Í SÓKN

Þágufallið er greinilega í sókn. Í fréttum Bylgjunnar að morgni mánudags sagði fréttamaður:,Stjórnvöldum grunar, að …” Þá heyrist æ oftar , til dæmis í umræðuþáttum og viðtölum, – jafnvel á hinu háa Alþingi: Mér langar …. Sennilega heldur þessi þróun áfram. Í áratugi hefur þetta verið kallað þágufallssýki. Málfarsráðunautur Ríkisútvarps vill  kalla þetta þágufallshneigð. Þetta er greinilega að breytast mun örar en áður.

Verður sjálfsagt talið gott og gilt áður en langt um líður og móðurmálskennarar hætta að munda rauða penna. Séu slíkir pennar ennþá til!

 

 

AFLAGA

Í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (11.10.2015) var talað um að eiga fé til aflögu. Betra hefði verið að mati Molaskrifara að tala um að eiga fé aflögu, eiga fyrir einhverju, vera aflögufær, geta innt greiðslu af hendi. Aflaga getur þýtt afgangur, segir orðabókin. Eiga eitthvað aflögu, eiga umfram þarfir.

 

NÝYRÐI

S skrifaði frá Danmörku (12.10.2015): ,,Ég fékk nýjan ÍSLYKIL frá IE eins og fyrirskrifað er.

Þetta voru þrjú orð. „freigáta.lagagildi“ voru tvö fyrstu oröin, en það

þriðja var „nýrðu“. Mér finnst endilega að þetta hljóti að vera boðháttur (eða bein spurning?) af

sögninni „að nýrða“(?) Hvað merkir hún? Er þetta nýyrði?

PS. Íslykillinn er breyttur!!!!!!!!!!!; Ekki getur Molaskrifari svarað þessu!

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>