«

»

Molar um málfar og miðla 1814

VARLA BOÐLEGT

Varla boðlegt, skrifaði Sigurður Sigurðarson (14.10.2015). Hann segir:,, Mér finnst þessi fyrirsögn í íþróttakálfi Morgunblaðsins í dag varla boðleg: „Gátum labbað stoltir af vellinum“.

Í blaðamennskunni í gamla daga var manni kennt að lagfæra orðalag viðmælenda sinna, leiðrétta málvillur, lagfæra setningaskipan og annað smálegt. Þó Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, hafi sagt að eftir leikinn í Tyrklandi hafi þeir getað „labbað stoltir af vellinum“ hefðu betri blaðmenn lagfært orðalagið.

Gátum gengið stoltir af velli“ er miklu betra.

Sögnin að labba á við rölt eða gang smábarna. Orðið á jafnvel við kæruleysislegt eða stefnulaust rölt. Nú bregður svo við að illa skrifandi fjölmiðlamenn og fleiri segja frá fólki sem labbar á Everest, labbar á skíðum. Hvorki er það kæruleysislegt né stefnulaust að labba á Suðurskautið eða labba Laugaveginn. Óskandi væri að sögnin að ganga væri frekar notuð enda mun meiri gangur í því orði.” Kærar þakkir, Sigurður. Hjartanlega sammála. Þörf áminning.

 

BÚIÐ AÐ LÆGJA

Í veðurfréttum sjónvarps er stundum sagt: ,,Á föstudag verður (eða er) búið að lægja”. Molaskrifari játar að hann er ekki hrifinn af þessu orðalagi. Á föstudag hefur lægt, á föstudag hefur vindur gengið niður, á föstudag verður lygnara.

 

AÐ SKIPTA UM HENDUR

Molaskrifari, svo sérvitur sem hann er, hefur aldrei getað sætt sig við notkun orðtaksins að skipta um hendur, þegar eigendaskipti verða að fé eða fasteignum. Í Morgunblaðinu (12.10.2015) skrifar lögfræðingur stutta grein eða athugasemd undir fyrirsögninni: Engir peningar skiptu um hendur. Engar greiðslur áttu sér stað. Ekkert fé var greitt. Kannski er þetta sjónarmið Molaskrifara gamaldags.

 

ÚTSEND DAGSKRÁ RÍKISSJÓNVARPSINS

Hin auglýsta , útsenda dagskrá Ríkissjónvarpsins skiptir nú orðið æ minna máli. Óteljandi sjónvarpsáhorfendur eru orðnir eigin dagskrárstjórar og láta oft hina auglýstu dagskrá (línulegu dagskrá,segja sumir) lönd og leið. Molaskrifari hefur til dæmis ekki minnsta áhuga á vampýru- og draugamyndum, sem til skamms tíma voru eftirlætisefni í Efstaleitinu og veit allt sem hann langar að vita um löggur , slökkviliðsmenn og bráðaliða í Chicago,en þættir af því tagi hafa verið Ríkissjónvarpinu óþrjótandi efnisuppspretta.

Tæknin við að vera sinn eigin efnisstjóri er margvísleg og kann skrifari ekki full skil á henni, þekkir Netflix og Apple TV aðeins af afspurn. Spotify veit hann varla hvað er.  Hann á hinsvegar margra stöðva val í Sjónvarpi Símans, nýtir sér Tímaflakkið óspart og notar Sarpinn á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Þar að auki hefur hann svo eitthvað sem heitir Chromecast, en þar um er hægt að færa efni af YouTube beint á sjónvarpsskjáinn. Mesta þarfaþing. Dagskrárstjórar skipta máli, en vægi þeirra minnkar, breytist. Á þjóðarstöðvum breytir það hinsvegar ekki því, að þeir eiga að fara vel með það almannafé,sem þeim er fengið til ráðstöfunar.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>