«

»

Molar um málfar og miðla 1815

 

RÚMA – RÝMA

Glöggur lesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi á mbl.is (14.10.2015): ,, Tjöld sem Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa reist rýma aðeins lít­ill hluta af flótta­fólk­inu og gista því marg­ir und­ir ber­um himni. Blaðamaður mbl.is náði tali af Ástu í morg­un þegar þær Dí­ana voru á ferð um Les­bos.”

Blaðamaðurinn sem fréttina skrifaði ruglar saman sögnunum að rúma og að rýma. Þarna hefði átt að nota sögnina að rúma, en sögnin að rýma þýðir að ryðja frá, gera rýmra. Hún hefur lík mjög verið notuð seinni árin, þegar fólki er gert að yfirgefa hús sín, t.d. vegna snjóflóðhættu. Hús við Heiðarveg hafa verið rýmd. Önnur villa er í setningunni: Þarna hefði átt að standa:,, .. rúma aðeins lítinn hluta af flóttafólkinu ….” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/14/tok_a_moti_barni_a_strondinni/

 

EKKI AÐ …

Vinur og fyrrum samstarfsmaður leitaði álits Molaskrifara á þessari fyrirsögn á mbl.is (15.10.2015): Peningastefnan ekki að skila áhrifum. Svarið er einfalt. Þetta er ekki góð fyrirsögn. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/10/15/peningastefnan_ekki_ad_skila_ahrifum/

Þakka ábendinguna.

 

FJÖLÞREIFINN STJÖRNUFRÆÐINGUR

Það er alltaf gaman að sjá orð í fyrirsögnum eða fréttum, sem ekki eru algeng í daglegu máli. Þannig er til dæmis um orðið fjölþreifinn, í fyrirsögn á mbl.is sem þýðir ágengur, óvandaður, kvenhollur í þeim skilningi að angra konur með káfi, til dæmis. Netmoggi fær prik fyrir þetta. Sjá mbl.is (14.10.2015)

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/10/14/vilja_fjolthreifinn_stjornufraeding_burt/

,,,Vilja fjölþreifinn stjörnufræðing burt”, segir í fyrirsögninni. Stjörnufræðingurinn var sakaður um að áreita konur kynferðislega.

 

 

 

VERSLA MATVÖRU

,,Hjá N1 getur þú verslað matvöru …” auglýsir fyrirtækið N1 í útvarpsauglýsingu. Fyrirtækið ætti að sjá sóma sinn í að breyta þessu orðalagi í ,,… getur þú keypt matvöru …”. Molaskrifari nefnir þetta hér – enn einu sinni.

 

STOLINN SIGUR?

Tyrklandi tókst að stela sigrinum, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (14.10.2015). Íþróttafréttamönnum þykir þetta sumum ákaflega snjallt orðalag. Annars mundu þeir ekki éta það hver eftir öðrum. Tyrkir sigruðu Íslendinga í knattspyrnuleik. Stolinn sigur? Var eitthvað óheiðarlegt við sigur Tyrkjanna? Stálu þeir einhverju frá okkur, sem við áttum? Frá hverjum var sigrinum stolið?

 

LJÓSVAKI

Blaðamenn Morgunblaðsins skiptast á um að skrifa ,,Ljósvaka”, stutta pistla, sem birtir eru með dagskrá ljósvakamiðlanna í blaðinu. Í pistli miðvikudagsins (14.10.2015) hnaut Molaskrifari um eftirfarandi:,,Eins og margir aðrir sjálfstæðir foreldrar tengja við eru þær helgar…” Áttaði mig á því, að það ,,að tengja við” er víst að skilja. Og: ,, … var þar af leiðandi heima í kósí með sjónvarpinu,..” Vera í kósí með? Hafa það notalegt með,- sennilega. Svo var talað um að ,,horfa á aðra hafa gaman”. Á ensku er talað um to have fun, að skemmta sér. En þetta orðalag að hafa gaman er mjög að troða sér inn í málið, – afsakið orðalagið. En ekki var hátt á þessu risið.

 

GOTT VIÐTAL

Viðtal Sigmars Guðmundssonar við Kára Stefánsson í morgunútvarpi Rásar tvö (15.10.2015) var fróðlegt. Vonandi hafa ,,búðabrennivínsmennirnir”á Alþingi hlustað. Í hverra þágu eru þeir að störfum? Málið var enn og aftur á dagskrá þingsins síðdegis á fimmtudag og rætt fram, á kvöd.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>