«

»

Molar um málfar og miðla 1826

BRÁÐ HVERS?

Starfsfélagi frá því á árum áður sendi Molum eftirfarandi (29.10.2015): ,,Þakka fyrir málfarsþættina þína – það er reyndar ábyggilega óþægilega auðvelt að halda slíku úti! Rakst á frásögn í visir.is áðan um geitina sem brann við Ikea. Spurningin er bara hvað var bráð hvers, þegar upp var staðið (úr eldhafinu) …? „Verslunin IKEA ætlar ekki að höfða mál vegna ljósaseríanna sem urðu jólageitinni í Kauptúni að bráð á mánudag. Seríurnar voru keyptar á íslenskum markaði fyrr á þessu ári en svo virðist sem leitt hafi úr seríunni sem varð til þess að eldur kom upp.“

Þakka bréfið. Einmitt hvað var bráð hvers! Greinilega ótrúleg geit og ótrúleg skrif! Sjá: http://www.visir.is/ikea-aetlar-ekki-i-skadabotamal-vegna-jolaljosanna/article/2015151028784

 

BULLFYRIRSÖGN

T.H. benti á þessa frétt á visir.is (29.10.2015):  http://www.visir.is/hank-haney–sjaldan-sed-haefileikari-kylfing-heldur-en-jason-day/article/2015151028610

Hank Haney: Sjaldan séð hæfileikari kylfing heldur en Jason Day
Hann segir:,,Alltaf gaman að sjá svona bull í fyrirsögn, en hvað skyldi þetta nú þýða?”. Þakka ábendinguna T.H. Bull er rétta orðið.

 

GOTT KVÖLD

Margt gott í dagskrá Ríkissjónvarps í gærkvöldi (01.11.2015), Landinn stendur fyrir sínu, – eins og fyrri daginn. Ísfólkið, þáttur Ragnhildar Steinunnar um 36 ára gamla tíu barna móður, Sigrúnu Elísabetu Arnardóttur, var prýðilega gerður og eftirminnilegur.  Maður sat bara dolfallinn. Og svo var auðvitað gaman að  rifja upp gömul kynni af Sölku Völku í sænskri útgáfu.

 

ÍBÚAFJÖLDINN ELDIST

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (29.10.2015) var sagt frá því að Kommúnistaflokkur Kína hefði nú ákveðið að leyfa hjónum að eignast tvö börn. Lögbundið var í nokkra áratugi að kínversk hjón mættu ekki eignast nema eitt barn og varðaði sektum eða fóstureyðingu ef út af var brugðið. Þessum reglum var ekki allstaðar fylgt fast eftir til sveita og eins ef fyrsta barn reyndist vanheilt. Þá mátti í sumum tilvikum reyna aftur. Seinni árin hafa ríkir  Kínverjar reyndar getað keypt sig undan ákvæðum laganna um eitt barn.

Í fréttinni um þetta, sem lesin var í hádeginu, var sagt að gildandi reglur væru rýmkaðar vegna þess,,hversu mjög íbúafjöldinn hefur elst”. Átt var við að meðalaldur þjóðarinnar hefði hækkað mikið. Þetta sama orðalag var endurtekið í kvöldfréttum sjónvarps.

 

TILGÓÐA – TIL GÓÐS

Þannig var til orða tekið í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1400 á fimmtudag (29.10.2015) að e-ð væri e-u til góða. Þarna var notað rangt fall , eitthvað verður einhverju eða einhverjum til góðs. Að eiga til góða þýðir hins vegar að eiga eitthvað inni, láta eitthvað bíða betri tíma, njóta einhvers síðar.

 

RÍKISÚTVARPIÐ

Illugi menntamálaráðherra var í viðtali í beinni útsendingu í fréttatíma Ríkissjónvarps (29.10.2015) vegna skýrslu um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Hann fær hrós fyrir að kalla Ríkisútvarpið sínu rétta nafni og tala um það sem stofnun, ekki félagið eins og núverandi og fyrrverandi útvarpsstjóri hafa jafnan gert. . Fréttaþulur sem ræddi við ráðherra talaði aftur og aftur um RÚV, – ekki Ríkisútvarpið. Undarlegar eru hins vegar þakkarauglýsingar starfsmanna Ríkisútvarpsins, sem glumið hafa í eyrum að undanförnu. þeir kalla sig alltafstarfsmenn RÚV.- Vita þeir ekki hvað stofnunin heitir? Hún heitir ekki RÚV. Hún heitir Ríkisútvarpið. Þeir starfa hjá Ríkisútvarpinu. Þeir starfa ekki hjá neinu RÚV!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>