UM VIÐTENGINGARHÁTT
Molavin sendi eftirfarandi ( 31.10.2015): ,, „Dómarinn taldi að boltinn fór í höndina...“ segir visir.is (30.10.2015). Það er því miður orðið alvanalegt að fjölmiðlafólk kann ekki notkun viðtengingarháttar. Notar hann ýmist ekki – eða eins og æ oftar má sjá í fyrirsögnum, í röngu samhengi. Þar með breytist merkingin. Þetta er ekki lengur aðeins sá vandi að ráðið er til starfa fólk, sem kann ekki meðferð móðurmálsins. Eftirlitsleysi og vanþekking yfirmanna fjölmiðla er að verða átakanlegur vandi.- Þakka bréfið, Molavin.
FÁNINN SNERI ÖFUGT
Þórarinn Guðnason, gamall vinur og vinnufélagi benti á eftirfarandi á vef Ríkisútvarpsins (30.10.2015):
,,…Bæði skrifstofan og aðrir, sem komu að undirbúningi tóku ekki eftir þessu,“ segir Helgi.”
“Úr frétt RUV.is um fánamálið.
Hefði nú mátt orða þetta betur!”
Þetta snerist um það að breski fáninn sneri öfugt á borðfánastöng fyrir framan Cameron forsætisráðherra.
Þakka ábendinguna, Þórarinn.
Sjá: http://www.ruv.is/frett/breski-thjodfaninn-sneri-ekki-rett
EINBIRNISSTEFNA
,,Einbirnisstefna afnumin í Kína en barneignir ekki frjálsar”, er góð fyrirsögn í Morgunblaðinu (30.10.2015) um stefnubreytingu Kommúnistaflokks Kína,sem nú leyfir þegnum landsins í sambúð eða hjónabandi að eignast tvö börn.
AÐ TRIMMA INN Í FJÁRHEIMILDIR
Í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (29.10.2015) var rætt við formann fjárlaganefndar um skýrslu um fjárhag Ríkisútvarpsins. Meðal annars sagði formaðurinn: ,, … og jafnframt að það væri trimmað inn í þær fjárheimildir sem að birtast í fjárlögum 2016”.
Trimma inn í ? Laga að ? Hvað átti formaður fjárlaganefndar við? Fjárlög fyrir árið 2016 hafa ekki verið samþykkt. Fyrir liggur frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016. Þetta ætti öllum að vera ljóst.
ENN UM N1
Olíusalinn N1 heldur áfram að stuðla að vondu málfari.
Í útvarpsauglýsingum hvetur N1 hlustendurán afláts til að versla matvöru. Þetta hefur verið nefnt hér áður. Hefur þetta fyrirtæki einsett sér að stuðla að vondu málfari? Við kaupum matvöru. Verslum ekki matvöru. Molaskrifar verslar ekki við N1. Kaupir hvorki eitt né neitt af því fyrirtæki.
HVER BÝÐUR?
Í yfirliti hádegisfrétta Ríkisútvarpsins (29.10.2015) var sagt að Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra ætlaði að bjóða 100 sýrlenskum flóttamönnum til Íslands. Þetta er út í hött. Félagsmálaráðherra býður ekki flóttafólki til Íslands. Það gerir ríkisstjórn Íslands, nokkur sveitarfélög, – íslenska þjóðin. Þetta var raunar endurtekið í fréttalok.
Í fréttum Ríkisútvarps daginn eftir var svo búið að kúvenda. Þá var sagt að Flóttamannanefnd ætlaði að bjóða sýrlensku flóttafólki til Íslands.
AF FRÉTTABORÐA
Á fréttaborðanum sem rennur yfir skjáinn í fréttatíma Stöðvar tvö stóð sl. fimmtudag (29.10.2015): ,, 16 ára sænskri og óléttri stúlku var bjargað úr klóm ISIS”. Það var og.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar