«

»

Molar um málfar og miðla 1828

 

MÁLFJÓLUFJÖLD

Ótrúlega margar málfjólur, málvillur, voru í hádegisfréttatíma Bylgjunnar á sunnudag (01.11.2015)

Í frétt um flóttamannavandann var sagt að talið væri að um 400 þúsund flóttamenn…muni verða neitað um landvistarleyfi. Hefði átt að vera, –  talið væri að um 400 þúsund flóttamönnum muni verða neitað um landvistarleyfi.

Í frétt um flugslysið á Sinai-skaga sagði fréttamaður … þar sem flugmaðurinn ætlaði að framkvæma nauðlendingu. Framkvæma nauðlendingu? Þar sem flugmaðurinn ætlaði að freista þess að nauðlenda.

Úr annarri frétt: ,, Í hópnum eru rúmlega 330 Íslendingar og eru þeir lungann af þeim sjö hundruð sem svöruðu spurningum …” Ef menn nota orðtök, eða sjaldgæf orð, verða þeir að kunna að beita þeim. Hér hefði betur verið sagt, til dæmis: Í hópnum eru rúmlega 330 Íslendingar og er það lunginn af þeim sjö hundruð sem svöruðu spurningum …. Eða og er það þorri þeirra semLungi, er kjarni, það besta af einhverju, –  segir orðabókin.

330 getur reyndari aldrei verið lunginn af 700. Það er út í hött.

 

BOTTOMLÆNIÐ

Á Sprengisandi Bylgjunnar (01.11.2015) var rætt við fyrrverandi ráðherra og núverandi alþingisimann, sem þrisvar sinnum talaði um bottomlænið og einu sinni um valid sjónarmið! Sjálfsagt voru sletturnar fleiri. Verndun tungunnar er valid sjónarmið!!!! Halló! Engin viðleitni til að vanda sig. Enginn metnaður til að gera vel. Hversvegna slá um sig með enskuslettum ?

 

RANGT FALL

Viðureign grannliðanna frá suðurhveli jarðar var beðið með mikilli eftirvæntingu …., sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps í hádeginu á sunnudag (01.11.2015). Hann hefði átt að segja, að viðureignar grannliðanna hefði verið beðið …  Enginn les yfir , – eða hvað? Einhvers er beðið. Þarna virðist hafa skort máltilfinningu.

 

 

 

ENN UM ÁHAFNARMEÐLIMI

Í fréttum Bylgjunnar á hádegi (31.10.2015) var sagt frá flugslysi í Egyptalandi. Þar var talað um sjö áhafnarmeðlimi, í stað þess að tala um sjö manna áhöfn, eða sjö flugliða. Þá var sagt að flugfélagið væri staðsett í Síberíu. Er alveg sama hve oft er klifað á þessum vandaræðaorðum? Svo talaði þulur í Ríkissjónvarpinu (31.10.2015)  um meðlimi Spaugstofunnar!!! Átt var við þá Spaugstofufélaga. Er fólki á fréttastofum og ritstjórnum bara hjartanlega sama?

 

HÆÐIR Á HÆÐIR OFAN

Í næturfréttum Ríkisútvarps (31.10.2015) var klukkan fimm sagt frá húsi sem hafði hrunið og verkamenn grafist í rústum þess:,,…. verið var að bæta tveimur hæðum ofan á þær tvær , sem voru á byggingunni”. Hér hefði nægt að segja; –  verið var að bæta tveimur hæðum ofan á tvær sem fyrir voru, eða – verið var að bæta tveimur hæðum ofan á tveggja hæða hús.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>