«

»

Molar um málfar og miðla 1834

 

ÚTSLÁTTUR

Þ.G. skrifaði vegna fréttar á mbl.is (11.11.2015): ,,Frétt á vefmogga dagsins: „Ekki er útilokað að stálplata hafi slegið út þegar Perla var sjósett“. Skrifari hefur greinilega litla hugmynd um hugtakið útsláttur. Rafliðar slá út vegna yfirálags en stálplötur eiga til að rifna, tærast eða springa.””

Hárrétt ábending. Þakka bréfið. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/11/ekki_hefur_tekist_ad_thetta_framskip_perlu/

 

DROPINN

Aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins var í viðtali í morgunútvarpi Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (10.11.2015) og talaði um dropann sem fyllti mælinn. Þetta er gamall draugur og röng notkun orðtaks. Rétt er að tala um kornið sem fyllti mælinn. Sjá, Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, bls. 495. Nokkuð algengt er að heyra rangt farið með þetta. Korn var oft mælt í mælikerum og skeffumálum.

 

REKJA – REKA

Í pistli um Orkumál í áttafréttum Ríkisútvarps (10.11.2015) var fjallað um orkumál og alþjóðlega skýrslu um þau efni. Þar var sagt:

,, Þetta er aðallega rekið til batnandi orkunýtingar, orkusparnaðaraðgerða af ýmsu tagi og …. “ Þetta heyrist stundum, en er ekki rétt. Þetta er rakið til … hefði þetta átt að vera.

 

AÐ KJÓSA

Ertu búinn að kjósa? Þessari spurningu beina stjórarnir í Útvarpi Sögu til áheyrenda. Þeir eru ekki að tala um kosningar. Þeir eru að spyrja hvort hlustendur hafi með símtali tekið þátt í samkvæmisleik, sem þeir kalla skoðanakönnun. Það er út í hött og röng orðnotkun að tala um að kjósa í þessu sambandi.

 

HREINSKIPTNAR VIÐRÆÐUR

Á bls. 2 í Morgunblaðinu (10.11.2015) er fjögurra dálka fyrirsögn:

Hreinskiptar viðræður. Molaskrifari er á því að fyrirsögnin hefði átt að vera: Hreinskiptnar viðræður. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=hreinskiptinn

Þegar sagt er að viðræður á fundi hafi verið hreinskiptnar, þýðir það oftar en ekki að menn hafi hnakkrifist, – sagt meiningu sína umbúðalaust.

 

ÁHYGGJUEFNI?

Er það ekki áhugamönnum um íþróttir áhyggjuefni, hversu rúmfrekar fréttir um spillingu, mútur, hverskyns fjármálahneyksli og lyfjahneyksli í útlöndum eru í íþróttafréttatímum hér?

Í lok íþróttafrétta í Ríkissjónvarpi í gærkvöldi (11.11.2015) sagði íþróttafréttamaður: ,,Við fylgjumst að sjálfsögðu áfram með hneykslismálum í frjálsum íþróttum ….”.

En auðvitað er Ísland stikkfrí í þessu öllu. Hér þrífst engin spilling. Það vita allir.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>